Örlítið um starfsemi Söguseturs - Kristinn Hugason skrifar
Nú hallar sumri, þótt enn sé vonandi að vænta einhverra blíðudaga. Því er ráð að bregða að nýju niður penna og birta pistil hér í Feyki. Í síðasta pistli mínum fyrir sumarhlé sem birtist í Feyki 27. júní sl. fjallaði ég um sýningu Söguseturs íslenska hestsins; Íslenski hesturinn á fullveldisöld, sem áformað var að yrði uppi á landsmóti hestamanna í Víðidal í Reykjavík sem stóð fyrir dyrum dagana 1. til 8. júlí. Gekk það allt eftir og var sýningin uppi allan mótstímann en opnuð formlega fimmtudaginn 5. júlí í tengslum við setningu mótsins, rétt eins og sýningin; Uppruni kostanna, var opnuð formlega á landsmótinu á Hólum 2016 í tengslum við setningu þess móts.
Fjöldi mótsgesta skoðaði sýninguna á landsmótinu og vitaskuld mikið fleiri en gátu skoðað sýninguna 2016 þar sem hún var einungis uppi í sýningarhúsnæði SÍH á Hólum í Hjaltadal en sýningin í sumar var á mótssvæðinu sjálfu. Á þeim tíma sem liðinn er frá landsmótinu 2016 hefur sýningin; Uppruni kostanna, jafnframt verið gerð aðgengileg á heimasíðu Sögusetursins,(upphafsspjaldið), sjá HÉR og HÉR (sýningin sjálf). Þar er einnig að finna hvoru tveggja enska og þýska útgáfu sýningarinnar, sjá HÉR
Núna er framundan að finna sýningunni; Íslenski hesturinn á fullveldisöld, verðugan stað hér í Skagafirði auk þess að gera hana aðgengilega á heimasíðu setursins. Hvað stærð sýningarinnar varðar er um að ræða sagnarefil eins og greint var frá í pistlinum sem birtist í blaðinu þann 27. júní sl., refillinn er í margfelldinu (x10; hæð / lengd), best kemur hann út í stóru sýningarrými í stærðinni 1,5 x 15m en er læsilegur og kemur vel út í minna rými, allt niður í málsetninguna 0,5 x 5m.
Hvað sýninguna; Uppruni kostanna, varðar var hún að auki að hluta til uppi á landsmótinu í Reykjavík en nokkur af sýningaspjöldunum höfðu það hlutverk að afmarka gönguleið frá almenna sýningarsvæðinu upp á svæðið þar sem kynbótadómarnir fóru fram.
Nú þegar er viss hugmyndavinna hafin varðandi það sem SÍH kemur til með að fitja upp á næsta landsmóti en ekki veitir af að hefja undirbúning komandi landsmóts um leið og því fyrra lýkur!
Sumaropnun Sögusetursins lauk nú í ár föstudaginn 31. ágúst og stóð hún yfir frá júní byrjun. Opið var alla daga vikunnar nema mánudaga frá kl. 10 til 18. Gekk starfsemin vel, þegar þetta er ritað hefur gestafjöldinn ekki verið tekinn saman en virðist þó fljótt á litið halda nokkuð í við fyrri ár. Mætti gestafjöldinn vitaskuld vera meiri en raunin er, en hér er um sameiginlegt vandamál að ræða fyrir rekstraraðila utan suðursvæðis landsins, þar sem ferðamenn eru langflestir. Auðsætt er þó því miður, að sala í safnversluninni er minni en undanfarin ár og er það nokkuð sem ég hef heyrt frá fleirum sem eru með sambærilega starfsemi og SÍH.
Hér í lokin vil ég svo koma því á framfæri að þótt sumaropnuninni sé lokið þetta árið er vitaskuld hægt að komast inn á sýningar setursins með hópa en til þess þarf að panta fyrirfram með því að senda tölvupóst á netfangið sogusetrid@gmail.com eða á persónulegt netfang forstöðumanns khuga@centrum.is eða hringja einfaldlega í gsm. 891 9879.
Kristinn Hugason.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.