Ósáttur við brottvikningu Kristjáns Þorbjörnssonar

Í frétt á Vísir.is er greint frá því að Geir Jón Þórisson, fyrrverandi yfirlögregluþjónn og fyrrverandi formaður félags yfirlögregluþjóna sé afar ósáttur við brottvikningu Kristjáns Þorbjörnssonar, yfirlögregluþjóns á Blönduósi, sem vikið var frá störfum fyrr í þessum mánuði.  Eins og komið hefur fram var ástæða brottvikningarinnar sparnaður hjá embættinu. Stutt er í að Kristján nái eftirlaunaaldri, aðeins eitt ár þegar greiðslu biðlauna lýkur.

Geir Jón segir að brottvikningin samræmist á engan hátt því samkomulagi sem gert var í tíð Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra þegar ákveðið var á sínum tíma að fækka lögregluembættum í landinu. Var þá lögð á það rík áhersla að ef yfirmenn yrðu of margir skyldi það jafnast út þegar menn færu á eftirlaun. „Þetta var samkomulag allra á milli og allir gengu frá borði með þennan skilning og þetta samkomulag. Og engum hefur látið sér detta það til hugar að víkja frá lögreglumanni fyrr en núna,“ segir Geir Jón en hann var á þessum tíma formaður félags yfirlögregluþjóna.  Segir hann ennfremur að fordæmalaust sé að æviskipuðum yfirlögregluþjóni með flekkausan feril sé vikið frá störfum þegar svo skammt sé í starfslok. „Ég ætlast til þess að núverandi hæstvirtur dómsmálaráðherra, Sigríður Á. Andersen, grípi inn í og stöðvi þessa ósvinnu. Þetta hefur aldrei gerst í sögu lögreglunnar á Íslandi, með þessum hætti. Lögreglan á Blönduósi er þekkt fyrir að hafa staðið sig vel. Ég á ekki orð yfir þetta,“ segir Geir Jón í viðtalinu í morgun.

Fleiri fréttir