Prjónagjörningur og fjöldi námskeiða og fyrirlestra
Textílsetur Íslands og Þekkingarsetrið á Blönduósi standa saman að prjónahátíðinni Prjónagleði sem haldin verður á Blönduósi um komandi helgi, dagana 9.-11. júní. Prjónagleði er samvera áhugafólks um prjónaskap þar sem fólk miðlar og lærir hvort af öðru og er hátíðin nú haldin í annað sinn. Stefnt er að því að hátíðin verði árlegur viðburður.
Jóhanna Erla Pálmadóttir, framkvæmdarstjóri Textílseturs Íslands, átti hugmyndina að hátíðinni. Í kjölfarið var sótt um styrk til NordPlus árið 2015 til að heimsækja Fanö Strikkefestival. Ferðin var farin til að læra af þeim og sjá hvernig þeir halda sína hátíð en hún var þá haldin í tíunda sinn. Hátíðin í fyrra tókst mjög vel og voru þátttakendur um 300 talsins.
„Mikill metnaður hefur verið lagður í að fá góða kennara og fyrirlesara að hátíðinni sem gætu deilt kunnáttu sinni til þátttakenda. Að þessu sinni hefur veriið unnið að því að fá fleiri viðburði á hátíðina og lagt upp með að hafa myndarlegan hátíðarkvöldverð,“ segir Lee Ann Maginnis, skirfstofustjóri hjá Þekkingarsetrinu á Blönduósi. „Í ár gleður það okkur mjög að margir söluaðilar hafa ákveðið að taka þátt og verður mikið úrval af alls konar vörum en sölusýningin verður án aðgangseyris og verður opin frá kl. 14 – 18 á föstudegi, 10-18 á laugardegi og frá kl. 9-12 á sunnudeginum. Sölusýningin verður haldin í íþróttahúsinu á Blönduósi.“
Meðal þess sem á dagskránni verður má nefna námskeið um hjaltneskt sjalamynstur, vefprjón, sjalaprjón og loapeysuprjón svo eitthvað sé nefnt. Einnig verða áhugaverðir fyrirlestrar, s.s. fyrirlestrar um jurtalitun, hekl í Havana og um íslensku lopapeysuna. Segir Lee Ann að námskeið Anne Eunson frá Hjaltlandseyjum séu alltaf vinsæl en að öðru leyti séu námskeiðin vel sótt og þá sérstaklega þegar boðið sé upp á nýja tækni.
Lee Ann vill sérstaklega benda á prjónagjörninginn sem halda á kl. 17:30 á laugardaginn þegar stór hópur prjónafólks mun á einni klukkustund hittast og eiga einstaka stund saman. Lykilinn að prjónagjörningnum er að þvinga tímann til að aðlaga sig að líkamstaktinum. Löngun til að hægja á hraðanum – að takti líkamans. Í þessum gjörningi er það sá sem hægast prjónar sem stýrir hraða gjörningsins. Atburðurinn er opinn öllum en gott er að aðilar skrá sig hér http://prjonagledi.is/signup-for-group-knitting-event-own-our-own-time-vi/
Dagskrá hátíðarinnar má nálgast hér.