Rabb-a-babb 188: Jón á Hofi

„Myndin er sviðsett,“ segir Jón. MYND: ELINE SCHRUVER
„Myndin er sviðsett,“ segir Jón. MYND: ELINE SCHRUVER

Nafn: Jón Gíslason.
Árgangur: 1963.
Fjölskylduhagir: Giftur.
Búseta: Hof í Vatnsdal.
Hverra manna ertu og hvar upp alinn: Foreldrar mínir hétu Gísli Pálsson og Vigdís Ágústsdóttir. Bæði látin. Er yngstur 4ra systkina. Hef alla tíð búið á Hofi.
Starf / nám: Bóndi, stúdent frá MA og búfræðingur frá Hólum.
Hvað er í deiglunni: Búskapurinn alla daga…

Rabbið:

Hvernig nemandi varstu? Þokkalegur.

Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum? Ég var svo lítill að hemdurnar náðu tæpast fram úr fermingarkyrtlinum. Stækkaði svo bara seinna…

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Bóndi.

Hvert var uppáhalds leikfangið þitt þegar þú varst krakki? Boltar af ýmsu tagi.

Besti ilmurinn? Töðuilmur (þetta er skrifað á heyskapartíma) .

Hvar og hvenær sástu núverandi maka þinn fyrst? Á hestbaki 1994.

Hvað varstu að hlusta á þegar þú fékkst bílprófið? Það man ég ekki, tónlist er eitthvað sem kemur inn um annað eyrað og fer samstundis út um hitt.

Hvernig slakarðu á? Ef ég vissi það nú!

Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu? Horfi (stundum) mikið á sjónvarp, en er ekki háður því. Beinar útsendingar á körfubolta er ofarlega á vinsældalistanum.

Hvaða íþróttamanni hefurðu mestar mætur á? Dætur mínar og eiginkona eru duglegar að keppa í hestaíþróttum, og önnur stelpan í fótbolta. Segjum þær. Svo var Jordan einstakur.

Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili? Ég er vélakarlinn.

Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu? Vera ekki fyrir.

Hættulegasta helgarnammið? Óttast ekkert í þeim efnum. Alæta.

Hvernig er eggið best? Spælt.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? Er óþarflega skapstór.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? Óstundvísi og almenn ómerkilegheit.

Uppáhalds málsháttur eða tilvitnun? Hver er sinnar gæfu smiður.

Hver er elsta minningin sem þú átt? Þegar síðustu kýrnar fóru héðan og mjólkurframleiðslu hætt.

Þú vaknar einn morgunn í líkama frægrar manneskju og þarft að dúsa þar einn dag. Hver værirðu til í að vera og hvað myndirðu gera? Trump. Ég myndi segja af mér í hvelli og bæta heiminn þar með.

Hver er uppáhalds bókin þín og/eða rithöfundur? Helgi skoðar heiminn er góð.

Hvaða þremur persónum vildirðu bjóða í draumakvöldverð? Einfalt, fjölskyldunni!

Ef þú gætir farið til baka í tímann, hvert færirðu? Hefði verið gaman að sjá Ísland við landnám.

Hver væri titillinn á ævisögu þinni? Út með köttinn!

Framlenging:

Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu... Í hring, útsýnisflug og svo heim aftur.

Nefndu eitthvað þrennt sem þér finnst þú mega til að gera áður en þú gefur upp öndina: Skoða landið betur, njóta lífsins og reyna að fresta brottfarardeginum eftir megni.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir