Rannsókn á viðkvæmu stigi og veitir lögregla ekki frekari upplýsingar

Rannsókn á skotárás sem varð á Blönduósi síðastliðinn sunnudagsmorgun mun taka tíma og biður lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra um skilning á því, í færslu á Facebook-síðu embættisins en það fer með rannsókn málsins. „Æðsta skylda lögreglu við sakamálarannsóknir er að gæta rannsóknarhagsmuna svo að sakarspjöll verði ekki,“ segir í tilkynningunni.

Þar kemur jafnframt fram að þegar staða rannsóknarinnar gefi tilefni til verði frekari upplýsingar veittar en málið er alvarlegt og á viðkvæmu stigi og getur lögregla því ekki veitt frekari upplýsingar að svo stöddu.

Rannsókn málsins er í forgangi hjá lögreglunni og segir í yfirlýsingu lögreglunnar að kappkostað sé að ljúka henni hratt og vel. Allra rannsóknaraðferða sé beitt sem varpað geti ljósi á málið.

„Markmið rannsóknarinnar er að leiða í ljós hvað átti sér stað umrætt sinn. Lögregla telur sig hafa grófa mynd af því sem gerðist en enn eru margir þættir málsins óljósir. Rannsókn beinist meðal annars að því að upplýsa þá. Mikið af upplýsingum um atvik málsins komu fram frá lögreglu á fyrstu stigum og hefur lögregla engu við það að bæta nú. Ekki er hægt að upplýsa frekar um einstaka rannsóknaraðgerðir á þessu stigi,“ segir í færslu lögreglunnar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir