Rannveig Sigrún sigraði í söngkeppni félagsmiðstöðva á Norðurlandi
Síðastliðinn föstudag fór fríður hópur ungmenna úr Félagsmiðstöðinni Friði í Skagafirði til Dalvíkur en þar fór fram söngkeppni félagsmiðstöðva á Norðurlandi, Norður-org. Þrettán atriði voru skráð til leiks og kepptu um þau fimm sæti sem voru í boði í Söngkeppni Samfés sem verður haldi 25. mars nk. í Laugardalshöll.
Rannveig Sigrún Stefánsdóttir, 9. bekk Árskóla, var fulltrúi Friðar og söng hún sig í úrslit með lagið "Someone like you" eftir Adele. Rannveig Sigrún er dóttir Stefáns Ómars Stefánssonar og Ingu Láru Sigurðardóttur á Sauðárkróki.
Á heimasíðu Friðar segir að 75 ungmenni úr 8.-10. bekk grunnskólum Skagafjarðar ásamt fimm starfsmönnum hafi verið í klappliðinu og myndaðist mikil stemning þegar Rannveig söng sitt lag. Mátti sjá nánast alla síma í salnum lýsa en um 4-500 ungmenni voru á staðnum ásamt starfsfólki.
Hér að neðan má sjá Rannveigu í Norður-orgi.