Reiðufé fannst í Húnabyggð

Reiðufé fannst í sveitarfélaginu Húnabyggð fyrir skemmstu og var komið til lögreglunnar á Norðurlandi vestra. Á Facebook-síðu Lögreglunnar á Norðurlandi vestra segir að eðli máls samkvæmt sé ekki unnt að veita frekari upplýsingar um hið fundna reiðufé.

Í samræmi við hina rótgrónu réttarheimild, opið bréf (frá kansellíinu) um meðferð á fundnu fé í kaupstöðum, getur eigandi vitjað fjárins á lögregluvarðstofunni á Blönduósi.

Á vef Alþingis má finna texta þessa ágæta opna bréfs frá því 28. september 1767 en þar segir að „... fundnir munir skulu geymdir á skrifstofu lögreglustjóra, og skuli þar bókað, hver fundið hafi hvern hlut og hvar, og það auglýst í blaði og með uppfestri skrifaðri auglýsingu; að þegar eigandinn gefur sig fram og fær hið fundna afhent á skrifstofu lögreglustjóra, skuli hann greiða dálitla þóknun í fundarlaun, eftir verði hlutarins, atvikum og úrskurði lögreglustjóra og auk þess kostnað við birtingu í blaði; og loks að, ef eigandinn kemur eigi innan árs og dags, skuli selja hið fundna handa lögreglusjóðnum, og finnandi þá fá þriðjung þess í fundarlaun. En með allrahæstum úrskurði, 5. júní síðastl., hefir Hans Hátign allramildilegast ákveðið, að fyrirmælin í ofannefndu opnu bréfi, 28. september 1767, skulu eftirleiðis einnig ná til allra annarra kaupstaða í báðum ríkjunum, þó svo, að í þeim kaupstöðum, þar sem engin blöð koma út, skal hinum fundnu munum lýst með uppfestum auglýsingum og bumbuslætti.

Þetta hefur að öllum líkindum ekki farið á netið upphaflega. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir