Róleg helgi hjá lögreglunni á Sauðárkróki
Í dagbók lögreglunnar á Sauðárkróki kemur fram að helgin var með rólegra móti. Betur fór en á horfðist þegar ekið var á átta ára stúlku á föstudag en hún slapp svo til ómeidd. Þá fóru skemmtanahöld vel fram þrátt fyrir að töluvert væri af fólki úti á lífinu.
En við skulum gefa lögreglunni orðið; -Betur fór en á horfðist þegar átta ára gömul stúlka hjólaði í veg fyrir bíl á Skagfirðingabraut um miðjan dag á föstudaginn. Voru málsatvik með þeim hætti að ökumaður bifreiðarinnar hugðist beygja frá Bárustíg norður Skagfirðingabraut þegar stúlkan kom hjólandi á gangstéttinni suður Skagfirðingabraut og í veg fyrir bifreiðina. Stúlkan hlaut minniháttar áverka á fæti og var hún flutt með sjúkrabifreið til aðhlynningar á heilbrigðisstofnunina til aðhlynningar.
Skemmtanalífið fór vel fram um helgina og þurfti lögreglan lítið að hafa sig í frammi. Töluvert af fólki var á skemmtistöðum bæjarins á laugardag en minna á föstudag.
Nú er sá tími ársins sem ökumenn geta búist við að sauðfé sé á og við vegi. Vill lögreglan beina þeim tilmælum til ökumanna að gæta varúðar og miða ávalt akstur út frá aðstæðum hverju sinni. Nú um helgina var ekið á tvær rollur í Skagafirði sem báðar drápust og tjón varð á ökutækjum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.