Samgönguáætlun í algeru uppnámi

Sveitarstjórn Húnaþings vestra skorar á stjórnvöld að finna lausn á þeim brýna vanda sem skapast hefur í samgöngumálum á landinu og deilir áhyggjum sínum með byggðaráði sem segir m.a. að ekki sé aðeins um öryggismál að ræða fyrir íbúa og ferðamenn á landinu heldur einnig brýnt byggðamál þar sem langlundargeð íbúa þar sem ástandið er verst sé fyrir löngu þrotið.

Á fundi sveitarstjórnar í síðustu viku voru samgöngumálin rædd og lögð fram yfirlýsing byggðarráðsins sem er eftirfarandi:
„Byggðarráð Húnaþings vestra lýsir yfir vonbrigðum með stöðu samgöngumála á landinu.  Miðað við nýjust fréttir um skort á fjármagni til þegar samþykktra framkvæmda er ljóst að hin fjögurra mánaða gamla samgönguáætlun sem afgreidd var á síðasta þingi er í algeru uppnámi. Ekki aðeins þau verkefni sem útlit er fyrir að verði skorin niður á þessu ári, heldur áætlunin öll. Samkvæmt þeim upplýsingum sem byggðarráð fékk á fundi með fulltrúum Vegagerðarinnar fyrir skömmu höfðu þeir nánast ekki úr neinu að spila í almennt viðhald, hvað þá nýframkvæmdir. Síðan sá fundur átti sér stað hefur enn frekar verið skorið niður.

Byggðarráð skorar á stjórnvöld að finna nú í eitt skipti fyrir öll lausn á þeim brýna vanda sem skapast hefur í samgöngumálum. Ekki er aðeins um öryggismál að ræða fyrir íbúa og ferðamenn á landinu heldur einnig brýnt byggðamál þar sem langlundargeð íbúa þar sem ástandið er verst er fyrir löngu þrotið.“

Fleiri fréttir