Samningur milli Bocus d’or Akademíunnar og Kaupfélags Skagfirðinga undirritaður

Meðlimir Bocus d‘or Akademíunnar ásamt Hinriki Inga Guðbjargarsyni fyrir miðju og Óla Viðari Andréssyni hjá Kjötafurðastöð KS, lengst til hægri. Aðsend mynd.
Meðlimir Bocus d‘or Akademíunnar ásamt Hinriki Inga Guðbjargarsyni fyrir miðju og Óla Viðari Andréssyni hjá Kjötafurðastöð KS, lengst til hægri. Aðsend mynd.

Samstarfssamningur milli Bocus d‘or Akademíunnar og Kaupfélags Skagfirðinga var nýverið undirritaður og endurnýjaður. Þar með er gerður samningur þess efnis að KS, Kaupfélag Skagfirðinga, ásamt dótturfélaginu Esju gæðafæði, verði einn af aðalstyrktaraðilum akademíunnar næstu tvö árin. „Mikilvægt fyrir okkur að styðja við bakið á íslensku keppendunum og ekki síður frábær leið til að kynna íslenska lambakjötið,” segir Hinrik Ingi Guðbjargarson.

 „Þetta er mikilvæg leið fyrir okkur til að styðja við keppendurna. Nýlega náðum við Íslendingar okkar besta í þessari keppni og því svo sannarlega grundvöllur til að halda vel utan um okkar fólk í keppninni,“ segir Hinrik Ingi Guðbjargarson sölustjóri hjá Esju gæðafæði sem er að vonum ánægður með undirritunina.

Bocuse d‘or keppnin er ein stærsta og virtasta einstaklingskeppni í matreiðslu sem haldin er í heiminum og hefur verið haldin síðan 1987, eða í heila þrjá áratugi. Keppnin er gríðarlega virt og komast mun færri að en vilja. Keppnin er jafnframt stundum kölluð hin eina sanna heimsmeistarakeppni í matreiðslu.

Hinrik segir tækifærin sem felist í að taka sér stöðu aðalstyrktaraðila akademíunnar næstu tvö árin mýmörg og margskonar fyrir KS og Esju. „ Burtséð frá að styðja við bakið á fagfólkinu okkar og hjálpa því að komast sem lengst,  þá sjáum við stór tækifæri í að kynna íslenska lambakjötið. Það að íslenskum kokkum gangi vel þýðir að aukinn fókus er settur á íslenska matvöru. Þannig getum við stuðlað að því að láta þetta vinna vel saman. Ég efast um að hægt sé að fá betri kynningu fyrir íslenska lamakjötið eins og að sjá hvernig íslensku kokkarnir vinna með kjötið okkar. Þetta er frábær leið til að kynna það,” segir Hinrik.

Við undirritun var jafnframt kunngjört að Bjarni Siguróli Jakobsson verði næsti keppandi fyrir Íslands hönd í Bocuse d‘or Eureope 2018 en það er forkeppni fyrir aðalkeppnina sem haldin er í Lyon í Frakklandi.

Eins og áður segir er Bocuse d‘or keppnin ein stærsta og virtasta einstaklings kokkakeppni í heimi og þykja meðlimir Íslensku akademíunnar hafa getið sér gott orð í keppninni enda náð frábærum árangri. Skemmst er að minnast að Viktor Örn Andrésson nældi sér í þriðja sætið í lokakeppninni í ár og tókst þar með að ná bestum árangri sem íslendingur hefur náð hingað til.

/Fréttatilkynning

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir