Selfoss sullaði Stólastúlkum úr Mjólkurbikarnum

Murielle í baráttunni. MYND: ÓAB
Murielle í baráttunni. MYND: ÓAB

Stólastúlkur fengu lið Selfoss í heimsókn á Krókinn í dag í Mjólkurbikarn kvenna en lið Selfoss hefur náð eftirtektarverðum árangri í keppninni. Leikurinn var jafn og hart var barist en það voru gestirnir sem gerðu eina mark leiksins í fyrri hálfleik þrátt fyrir taktvissan stuðning stúkuliðs Stólastúlkna. Bikardraumur Tindastóls því úti við fyrstu hindrun.

Lið Selfoss virkaði reynslumeira og harðsvíraðra í leik sínum í dag með Sif Atladóttir ógnarsterka í öftustu vörn. Bæði liðin áttu í raun í basli með að skapa sér færi þar sem varnarleikur beggja var öflugur. Mark kom á 34. mínútu eftir að gestirnir sóttu upp hægri kantinn, komu góðum bolta of auðveldlega inn á teiginn og eftir smá klafs féll hann fyrir Evu Lind Elíasdóttur sem setti boltann í markið án þess að Monica ætti möguleika á að ná í hann.

Bæði lið reyndu að sækja í síðari hálfeik og sköpuðu sér nokkur hálffæri. Melissa átti bestu tilraun Stólastúlkna en gott skot hennar fór rétt yfir. Illa gekk að nýta föst leikatriði að þessu sinni þar sem vörn Selfoss var feikisterk og þær voru oftar en ekki á undan í boltann og komu honum frá áður en heimastúlkur náðu að gera sig gildandi.

Tap því staðreynd í dag og Stólastúlkur geta nú einbeitt sér að Bestu deildinni. Liðið hélt ágætlega í boltann í leiknum og er að spila betri fótbolta en áður. Vandamálið líkt og áður á leiktíðinni er að það gengur illa að skora og þá er snúið að vinna leiki. Gwen var virkilega góð í vörninni í dag, Aldís María átti fína spretti en það skorti talsvert upp á að úrslitasendingin skilaði sér. Markverðir beggja liða gripu vel inn í og áttu góðan dag.

Stuðningsmönnum Stólanna þótti oft á tíðum sem gestirnir kæmust upp með tuddaskap og dómarinn sleppa að dæma á nokkur augljós brot. Gestirnir létu líka vel í sér heyra og mótmæltu þegar dæmt var á þá. Það er augljóst að andstæðingar Tindastóls brjóta hiklaust ef útlit er fyrir að Stólastúlkur séu að komast inn fyrir en eru að sleppa með spjöld. Kannski verða Stólastúlkur bara að láta finna betur fyrir sér og láta dómarann vita almennilega af því þegar brotið er á þeim – ekki bara taka því þegjandi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir