Sendibíll fullur af góðgæti

Smáframleiðendur á ferðinni. Hér er hún Herdís Sigurðardóttir í Áskaffi að afhenda vörur til Jóhönnu Björnsdóttur.  MYND: VÖRUSMIÐJAN
Smáframleiðendur á ferðinni. Hér er hún Herdís Sigurðardóttir í Áskaffi að afhenda vörur til Jóhönnu Björnsdóttur. MYND: VÖRUSMIÐJAN

Það hafa eflaust margir, sem fylgjast með Vörusmiðju BioPol á Facebook, orðið varir við smáframleiðendur á Norðurlandi vestra þar sem þeir hafa verið áberandi síðustu vikurnar eftir að sérútbúinn sendibíll fór á flakk með vörurnar þeirra í þeim tilgangi að selja þær. Þetta flotta verkefni sem kallast Smáframleiðendur á ferðinni virkar þannig að sá aðili sem er að framleiða afurð getur boðið upp á hana í þessum bíl sem staðsettur er í tiltekinn tíma á nýjum og nýjum stað (nokkra daga í röð) á Norðurlandi vestra. Áhugasamir geta svo komið og keypt vörur frá smáframleiðendum á þessum fyrirfram ákveðnu stöðum eða til að sækja það sem pantað var í gegnum netverslunina hjá vorusmidja.is

Þórhildur Jónsdóttir eða Tóta í BioPol eins og hún er oftast kölluð er forsvarsmaður þessa verkefnis sem fékk styrk í maí sl. frá SSNV eftir að óskað var eftir hugmyndum að sérstökum átaksverkefnum vegna áhrifa Covid 19 á starfssvæði samtakanna og komu um 90 hugmyndir inn á borð til þeirra.   „Hugmyndin með verkefninu var að auka aðgengi að vörum frá smáframleiðendum af svæðinu. Verkefnið tók allnokkurn tíma í undirbúningi því erfiðlega gekk að finna bíl sem hentaði, því þeir lágu ekki á lausu. Síðan fundum við þennan og settum allt af stað. Þá var áskorun að hafa bílinn huggulegan, jafnt utan sem innan, og fengum nokkra til liðs við okkur í það verkefni,“ segir Tóta.

Þeir sem komu að þessu verkefni voru hönnuðurinn Sóley Lee Tómasdóttir sem hannaði útlitið á bílnum og allt markaðsefni sem þarf að nota og Þröstur í Myndun merkti svo bílinn. „Við vildum líka að bíllinn tæki vel á móti okkar viðskiptavinum,“ segir Tóta og var Þuríður Helga Jónasdóttir, innanhúsarkitekt, fengin í lið með þeim til að raða upp í bílinn og velja með þeim liti og er ekki annað að sjá en vel hafi tekist til. En þá var verkið bara hálfnað, þegar bíllinn var tilbúinn, þá þurfti einhvern til að keyra bílinn, selja vöruna og fá vörur til að selja í bílnum. En þar sem mikil gróska er í alls konar framleiðslu hér á Norðurlandi vestra var ekki erfitt að finna vörur til að selja í þessum flotta bíl að sögn Tótu því þetta er í leiðinni frábært tækifæri fyrir smáframleiðendur til að kynna hvað þeir eru með í boði því Norðurland vestra er svo dreift svæði og margir að gera góða hluti í smáframleiðslu. Þegar verkefnið fór fyrst af stað voru 13 aðilar að selja sína vöru í bílnum en í dag eru þeir orðnir 18 og vonandi bætist í flóruna á nýju ári. „En þá var bara eftir að finna bílstjórann og sölumanninn, það er ekki sjálfgefið að ein og sama manneskjan hefði gaman af því að keyra og selja vörur en Auðbjörg Ósk Guðjónsdóttir tók að sér það verkefni og hefur sinnti því af mikilli natni,“ segir Tóta.

Auðbjörg Ósk Guðjónsdóttir tekur vel á móti viðskiptavinum í sendibílnum

„Fyrsta ferðin var farin í júlí með bílinn fullhlaðinn af góðgæti, rósum, garni og kremum. Viðtökurnar voru frábærar og þurfti nánast daglega að fylla á bílinn. Þar sem þetta er þróunar verkefni var byrjað á að keyra aðra hverja viku í sumar eftir fyrirfram ákveðnu leiðakerfi allt frá Borðeyri og út í Fljót. Núna í haust var ákveðið að halda áfram og tekin ákvörðun um að keyra bílinn einu sinni í mánuði út árið. Viðtökurnar hafa ekki verið síðri á haustmánuðum en í sumar því salan í síðustu ferð toppaði allar fyrri ferðir, sem er mjög ánægjulegt og greinilegt að heimamenn kunna að meta þessa þjónustu. Nú er bara að finna út hvernig hægt er að festa þessa þjónustu í sessi á nýju ári því þetta kostar jú allt peninga en við finnum fyrir þörf á að auka aðgengi að vörum frá smáframleiðendum,“ segir Tóta að lokum.

Nóg til að alls konar kjöti í frystinum  Fullt af vörum í bílnum

Þeir sem hafa áhuga á að panta vörur frá smáframleiðendum er bent á netverslunina á heimasíðunni www.vorusmidja.is en næsta ferð hjá bílnum er áætluð í næstu viku eða frá 17. til 21. nóvember.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir