Síðast var reynt að sameina Akrahrepp og Svf. Skagafjörð árið 2005 en bæði sveitarfélög höfnuðu

Í lok apríl 2021 ákváðu Akrahreppur og Sveitarfélagið Skagafjörður að hefja vinnu við að skoða kosti og galla sameiningar sveitarfélaganna og segir á vef verkefnisins, skagfirdingar.is, að óformlegar sameiningarviðræður hafi þá farið fram milli sveitarfélaganna með tilheyrandi greiningarvinnu og íbúafundum. Í september tóku sveitarstjórnir sveitarfélaganna ákvörðun um að hefja formlegar sameiningarviðræður sem mun ljúka með kosningu íbúa þann 19. febrúar.

Hugmyndir um sameiningu sveitarfélaganna tveggja eru ekki ný til komnar eins og fram kemur á heimasíðu sameiningarnefndar en fyrstu kosningar til sameiningar sveitarfélaga í Skagafirði fóru fram árið 1993.

„Tillagan var felld í Akrahreppi, Seyluhreppi, Lýtingsstaðahreppi, Skarðshreppi, Rípurhreppi og Fljótahreppi. Í Akrahreppi samþykktu 6,5% tillöguna en 93,5% höfnuðu. Árið 1997 var aftur kosið um sameiningu sveitarfélaga í Skagafirði, utan Akrahrepps en hreppsnefnd Akrahrepps hafnaði því að taka þátt í viðræðunum. Allir aðrir hreppar og Sauðárkrókur samþykktu tillöguna og Sveitarfélagið Skagafjörður tók til starfa 7. júlí 1998.

Frétt um niðurstöður sameiningarkosninga
á Norðurlandi vestra frá 2005

Í mars 2005 kom út skýrsla með lokatillögum nefndar um sameiningu sveitarfélaga sem skipuð var af þáverandi félagsmálaráðherra í desember 2003. Nefndin lagði m.a. til að íbúar Akrahrepps og Sveitarfélagsins Skagafjarðar greiddu atkvæði um sameiningu sveitarfélaganna tveggja. Þann 8. október 2005 var kosið um sameiningu Akrahrepps og Sveitarfélagsins Skagafjarðar en tillagan var felld í báðum sveitarfélögum. Í Sveitarfélaginu Skagafirði samþykktu 49,4% tillöguna en 50,6% höfnuðu henni. Í Akrahreppi samþykktu 16,5% tillöguna á meðan 83,5% höfnuðu henni. 
Árið 2017 afþakkaði Akrahreppur boð um þátttöku í sameiningarviðræðum Sveitarfélagsins Skagafjarðar og Skagabyggðar.“

Það vekur athygli að Svf. Skagafjörður hafi hafnað sameiningu í kosningunum 2005 en á það verður að líta að þátttaka var ekki mikil eða aðeins 16,4% kosningabærra manna. Á kjörskrá voru þá 2967 en aðeins 488 greiddu atkvæði, af þeim voru 19 sem skiluðu auðu samkvæmt frétt í Feyki frá þessum tíma.
Þátttakan var mun betri í Akrahreppi þar sem 82,4% tóku þátt eða 132 af þeim 165 sem voru á kjörskrá. Já sögðu 22, 111 sögðu nei og þrír seðlar voru auðir.

Fleiri fréttir