Síðasta tölublað Feykis á árinu er komið út

Síðasta tölublað Feykis á þessu ári kom út í gær og kennir þar margra grasa að vanda. Blaðið er 32 blaðsíður og í því er að finna fjöldann allan af jólakveðjum frá fyrirtækjum og félagasamtökum til íbúa Norðurlands vestra.

Forsíðumynd blaðsins er gullfalleg og er tekin af hinum snjalla ljósmyndara Róberti Daníel Jónssyni á Blönduósi. Þau leiðu mistök urðu að það láðist að geta nafns hans í blaðinu og biðjumst við innilegrar velvirðingar á því.

Meðal efnis í blaðinu má nefna viðtal við hjónin Ólöfu Ýrr Atladóttur og Arnar Þór Árnason sem eiga og reka gistiheimilið Sóta Lodge á Sólgörðum í Fljótum. Þau segja frá uppbggingu hótelsins og þeirri fjölbreyttu ferðaþjónustu sem þau standa fyrir í náttúruparadís Fljótanna.

Þorsteinn Þorsteinsson heldur áfram að rifja upp minningar sínar frá uppvaxtarárunum á Hofsósi og nú eru það samkomur og skemmtanir á ungdómsárum hans sem eru í forgrunni.

Ólafur Sigurgeirsson á Kálfsstöðum í Hjaltadal opnar Bók-haldið og segir lesendum frá því hvaða bækur höfða helst til hans og birtur er kafli úr bók Friðriks Friðrikssonar, æskulýðsfrömuðar og stofnanda KFUM, þar sem segir frá sannkallaðri svaðilför nokkurra ungra manna norðan úr landi til Reykjavíkur um aldamótin 1900.

JRJ Jeppaferðir eiga 25 ára afmæli og er talað við við stofnanda þeirra og eiganda, Jóhann R. Jakobsson. Birgitta H. Halldórsdóttir á Syðri-Lngumýri í Blöndudal heldur um áskorendapennann og María Reykdal segir frá rósarækt á Starrastöðum. Í matarþættinum er svo boðið upp á uppskrift að dýrindis eftirrétti sem sómir sér vel á jólaborðinu. Þá má ekki gleyma vísnaþætti Guðmundar bónda á Eiríksstöðum sem er hinn 774 í röðinni.

Ýmislegt fleira er að finna í blaðinu sem er til sölu í mörgum verslunum, stórum sem smáum, á Norðurlandi vestra.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir