Siggi Donna skrifar stuðningsmönnum

Á heimasíðu Tindastóls má finna ágætan pistin frá Sigga Donna, þjálfara meistaraflokks, þar sem hann fer yfir stöðuna í dag og leikina fram undan en strákarnir spila gríðarlega mikilvæga leiki á morgun og á þriðjudag.

Pistill Sigga í heild sinni;

pistill frá þjálfara m.fl. karla

Kæru stuðningsmenn.

Ný keppni er að hefjast næsta laugardag, en þá er fyrsti leikur í úrslitakeppni 3.deildar. Leikið verður við Magna á Grenivík og er seinnni leikurinn á okkar heimavelli, næst komandi þriðjudag kl.17:30.

Tindastóll sigraði C riðilinn eftir harða keppni við KB. Skallagrímur kom mest liða á óvart í þessum riðli en C riðillinn er að mínum dómi líklega sterkasti riðillinn þar sem ekkert lið var slakt. Við skorðuðum yfir 40 mörk og fengum á okkur 10, en töpuðum 2 leikjum þar sem við vorum talsvert sterkara liðið sérstaklega í leiknum við KB.

Leikmannahópurinn hefur verið stór og hef ég alltaf skipt öllum varamönnum inná, sem hefur komið okkur vel, því mikið hefur verið um meiðsl, meira en ég hef kynnst á löngum ferli. Lena, sjúkraþjálfari hefur haft mikið að gera og hefur hún staðið sig frábærlega og sýnt mikla fagmennsku í því, sem hún hefur gert, fyrir leikmenn liðsins.

Aðkomuleikmennirnir tveir, Arnar Sig og Kiddi, hafa komið vel inní hópinn og hefur Arnar sérstaklega spilað vel en Kiddi hefur ekki náð, fyrri styrk, vegna meiðsla sem hann varð fyrir, rétt fyrir mót.

Ingvi hefur skorað mest eða 11 mörk í 12 leikjum, en nokkrir hafa skorað 4-5 mörk og aðrir minna.

Í dag eru allir heilir fyrir utan Konna, Stefán og Jóa Helga, en Stefán og Jói, virðist ætla missa af mótinu vegna meiðsla sem þeir urðu fyrir á æfingu snemma sumars.

Arnar Skúli er kominn heim, eftir að hafa verið hjá Ægismönnum í sumar og er styrkur af piltinum.

Liðið er á réttri leið og tel ég að það sé tilbúið í þau miklu átök sem úrslitakeppnin væntanlega verður. Liðið hefur bætt leik sinn og náð góðum tökum á taktíkinni og sýnt framfarir, frá því í byrjun móts. Það hefur komið liðinu vel að hafa spilað á stórum hóp manna í sumar og því erfitt en skemmtilegt verkefni, sem bíður mín að velja 16 manna hópinn sem fer í leikinn á Grenivík.

Talandi um leikmannahópinn þá hafa ungu leikmennirnir allir blómstrað í sumar og sýnt miklar framfarir og er ég sem þjálfari mjög stoltur af því og tel jafnframt að framtíð fótboltans sé björt vitandi af þessum góðu fótboltamönnum sem eru að eflast með hverjum leik, 6 leikmenn úr 2. fl. voru í leiknum á móti Skallagrím sem vannst 2-0.

Atli, Loftur og Árni A hafa spilað nánast alla leikina í sumar í M.fl og 6 aðrir leikmenn úr 2. fl. komið við sögu.

Að lokum vona ég að stuðningsmenn Tindastóls, fjölmenni á völlinn næsta þriðjudag og láti í sér heyra, þannig að leikmenn liðsins finni fyrir þeirri hvatningu, sem þeir þurfa svo sannarlega á að halda.

Kveðja Siggi Donna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir