Sjónvarp Símans til allra landsmanna

Þúsundir landsmanna fá nú tækifæri til að sjá Sjónvarp Símans. Sjónvarpsstöðinni, sem áður var aðeins dreift um gagnvirkt sjónvarpskerfi, er nú dreift rétt eins og RÚV og næst því hvar sem móttaka sjónvarps er möguleg. „Við erum sannarlega ánægð að allir landsmenn geti fylgst með Sjónvarpi Símans – hvort sem er í afdölum, sumarbústaðahverfum, yfir netið eða loft,“ segir Magnús Ragnarsson, framkvæmdastjóri Miðlunar og markaða, hjá Símanum.

Sjónvarp Símans hefur verið frístöð frá vetrarmánuðum ársins 2015. Stöðin fór fyrst í loftið árið 1999 undir nafninu SkárEinn og var þá einnig frístöð til tíu ára en var breytt í áskriftarstöð. „Þar sem stöðin er frístöð eru auglýsingatekjur grundvöllur hennar og vöxtur þeirra forsenda þess að stöðin stækki. Það sjáum við nú og grípum því tækifærið til að vaxa enn frekar með aukinni dreifingu á stöðinni,“ segir Magnús.

Framboð á efni í Sjónvarpi Símans  hefur vaxið og var á dögunum samið við Disney um að heimahöfn þessa kvikmyndarisa verði hjá Símanum. Frozen er því páskamynd stöðvarinnar í ár. 

Pálmi Guðmundsson, sjónvarpsstjóri Símans, segir dagskrá Sjónvarps Símans nú samanstanda af þáttaröðum frá fimm stórum framleiðendum Hollywood – Twentieth Century Fox, CBS, NBC og Showtime.

„Það er kannski ekki á allra vitorði að Síminn er með svo marga samninga um efni í sjónvarpi og því frábært úrval, og fögnum við því sérstaklega að vera orðin heimahöfn Disney. Við hlökkum því ekki aðeins til páskanna heldur einnig haustsins, þegar við frumsýnum tvær nýjustu Star Wars myndirnar og um jólin verður dagskráin hlaðin vinsælum barnamyndum frá Disney.“

Síminn bendir á að mögulega þurfi að endurræsa lofttengda myndlykla svo stöðin sjáist.

Fleiri fréttir