Skagfirsk bakrödd og skagfirskir áhorfendur
Frábær árangur Eyþórs Inga og félaga í undankeppni Eurovision í gærkvöldi ætti ekki að hafa farið framhjá lesendum Feykis. Sauðkrækingurinn Kristján Gíslason var þar meðal fjögurra bakradda og einnig mun nokkur fjöldi Skagafirðingar hafa verið meðal áhorfenda, bæði á lokaæfingu og forkeppninni.
Í samtali við Feyki nú rétt í þessu sagði Kristján íslenska hópinn finna vel fyrir öllum stuðningnum og straumunum að heiman. „ Maður fékk eitthvað í augað þegar kveðjurnar fóru að berast og missti aðeins kúlið þegar Ísland var dregið upp úr pottinum.“
Kona Kristjáns, Hofsósingurinn Elín Greta Stefánsdóttir, ásamt fjórum öðrum Skagfirðingum sem voru með henni í för, fylgdust með undankeppninni í gær og var Kristján nýbúinn að kveðja þennan góða fylgdarhóp sinn, sem átti flug heim í dag, þegar blaðamaður Feykis spjallaði við hann á facebook nú í morgunsárið.
„Það var frábært fyrir mig að hafa þau með, það munar miklu,“ sagði Kristján. Og þetta voru aldeilis ekki einu Skagfirðingarnir sem lögðu leið sína til Malmö í tilefni keppninnar, því 10. bekkingar úr Árskóla á Sauðárkróki, sem eru í skólaferðalagi í Danmörku, fóru ásamt fylgdarmönnum sínum til Malmö að horfa á lokaæfingu fyrir forkeppnina í gær. „Ég heyrði í þeim alla leið upp á svið“ segir Kristján, kátur með þennan stuðning sveitunga sinna.
Kristján er ekki að taka þátt í Eurovision í fyrsta sinn, því hann flutti lagið Angel fyrir Íslands hönd í Parken í Danmörku árið 2001. Árið 2010 söng hann svo bakrödd með Heru í Osló. Kristján segist kunna betur við sig í bakröddum í Eurovision. „Hitt er aðeins of mikil sirkus fyrir sveitarstrákinn!“
Það er nóg framundan hjá íslenska hópnum og í dag verða t.a.m. tvær æfingar á sviði, þar af ein fyrir dómnefnd.
