Skagfirskt lag í Dægurlagakeppni Vestfjarða
Erla Gígja Þorvaldsdóttir á Sauðárkróki komst með lag í úrslit Dægurlagakeppni Vestfjarða sem haldin verður á Ísafirði helgina 4.- 5. júní nk. Lagið samdi hún í samvinnu við barnabarn sitt Hreindísi Ylvu Garðarsdóttur sem söng einmitt Eurovisionlag Erlu, Vornóttina, inn í átta laga úrslit í Söngvakeppni Sjónvarpsins veturinn 2009.
Lagið heitir Óður til Ísafjarðar og er eitt af 14 lögum sem komust í úrslit en það var Þórdís Jónsdóttir (Dísa í Hestinum) sem samdi ljóðið.
Hreindís Ylva mun að sjálfsögðu flytja lagið í keppninni sem verður haldin í Edinborgarhúsinu á Ísafirði. Þar verða lögin flutt „live“ og eru það vestfirskir tónlistarmenn sem sjá um undirleikinn. Hljómsveitarstjóri er Hrólfur Vagnsson.
Áhugasamir geta fylgst með framvindu mála á vefsíðunni http://www.songvakeppni.is/