Skipt um áhafnarmeðlimi Þórs á Blönduósi

Varðskipið Þór, flaggskip Landhelgisgæslunnar, fyrir utan Blönduós. Mynd: Róbert Daníel Jónsson.
Varðskipið Þór, flaggskip Landhelgisgæslunnar, fyrir utan Blönduós. Mynd: Róbert Daníel Jónsson.

Þór, varðskip Landhelgisgæslunnar, hefur verið í fiskveiðieftirliti á Húnaflóa og Norðvesturlandi undanfarna daga en í gær kom skipið til hafnar á Blönduósi. Að sögn Ásgríms L. Ásgrímssonar, framkvæmdastjóri aðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar, var ástæðan fyrir veru skipsins í Blönduóshöfn sú að skipt var um tvo áhafnameðlimi.

Ásgrímur segir að einnig hafi staðið til að taka um borð starfsmenn fiskistofu en hætt var við það vegna þess að það mun ekki viðra til eftirlits á næstu dögum miðað við veðurspá á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra.

Varðskipið Þór er flaggskip Landhelgisgæslunnar. Á heimasíðu gæslunnar segir að það hafi verið smíðað í ASMAR skipasmíðastöðinni í Talcahuano í Chile og kom það til sinnar heimahafnar vorið 2011. Skipið er eitt fullkomnasta skip sinnar tegundar á Norður-Atlantshafi. Það nýtist frábærlega til löggæslu og eftirlits, leitar- og björgunar, mengunarvarna en auk þess hefur það umtalsverða dráttargetu. Sjá nánar HÉR.

Róbert Daníel Jónsson á Blönduósi smellti flottum myndum af skipinu þegar það var staðsett rétt fyrir utan ósa Blöndu í gær.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir