Skipulagslýsing vegna deiliskipulags í Kálfshamarsvík
Unnin hefur verið skipulagslýsing vegna deiliskipulags í Kálfshamarsvík en Sveitarfélagið Skagabyggð fékk á árinu styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða vegna vinnu við deiliskipulag og hönnun til uppbyggingar göngustíga en staðurinn er vinsæll viðkomustaður ferðamanna sem um svæðið fara.
Í tilkynningu frá oddvita Skagabyggðar, Dagnýju Rósu Úlfarsdóttur, á vef Skagabyggðar segir að skipulagslýsingin geri ráð fyrir deiliskipulagi fyrir núverandi svæði þar sem farið verði í uppbyggingu á aðstöðu fyrir ferðamenn og bætt aðgengi. Því sé þörf á að skipuleggja svæðið og skilgreina betur aðkomusvæði, bílastæði, gönguleiðir, áningar- og útsýnisstaði ásamt því að staðsetja salernisbyggingu og að setja önnur ákvæði sem ástæða er til að skilgreina í deiliskipulagi. Fyrirhuguð uppbygging sé bæði til að vernda náttúru og minjar svæðisins og til að skapa gott og öruggt aðgengi að og um svæðið.
Nálgast má skipulagslýsinguna hér.
Athugasemdum við skipulagslýsinguna skal skila til oddvita Skagabyggðar, Ytra-Hóli 1, 541 Blönduós eigi síðar en 10.09.2018 og skulu þær vera skriflegar. Eftir kynningu á skipulagslýsingu verður deiliskipulagstillaga lögð fyrir skipulags- og byggingarnefnd og síðar sveitarstjórn og hún kynnt samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.