Smituðum fækkar á Norðurlandi vestra

Alls voru skráð 81 innanlandssmit sl. sólarhring og sitja nú alls 1.170 í einangrun vegna Covid-19 og 3.035 í sóttkví. Á Norðurlandi vestra greindist ekkert smit og fækkaði um einn í einangrun og þrjá í sóttkví frá síðustu færslu aðgerðarstjórnar almannavarna á Norðurlandi vestra. Á Norðurlandi vestra er aðeins einn í einangrun, sem er náttúrulega einum of mikið, og tveir í sóttkví og segir í færslu aðgerðarstjórnarinnar vonast sé að gengið á svæðinu muni halda áfram á þann veg. „Það er ljóst að samtaka getum við það. Munum sóttvarnaráðin!“

Fjöldatakmörkun sú er tók gildi þann 5. október varir til og með 19. október nk. en takmörkun á fjölda einstaklinga sem kemur saman miðast við 20 fullorðna, hvort sem er í einkarýmum eða í opinberum rýmum. Þetta á m.a. við um:

  • Ráðstefnur, málþing, útifundi o.þ.h.
  • Kennslu, fyrirlestra og prófahald.
  • Skemmtanir, svo sem tónleika, menningarviðburði, leiksýningar, bíósýningar, íþróttaviðburði og einkasamkvæmi.
  • Kirkjuathafnir, svo sem giftingar, fermingar og aðrar trúarsamkomur.

Fjöldatakmörkun, almenn nálægðartakmörkun og grímuskylda á ekki við um börn fædd 2005 eða síðar.
Á öllum vinnustöðum og í allri starfsemi mega ekki fleiri en 20 manns vera á sama tíma inni í sama rými. Tryggja skal að enginn samgangur sé milli rýma.
Verslunum er heimilt að hafa allt að 100 manns inni í einu svo framarlega sem hægt sé að tryggja 1 metra á milli fólks. Verslanir sem eru yfir 1.000 m2 að stærð mega hleypa til viðbótar einum viðskiptavini inn fyrir hverja 10 fm2 sem eru umfram þessa 1.000 fm2. Hámarksfjöldi viðskiptavina er þó alltaf 200.
Við útfarir mega allt að 50 manns vera viðstaddir.

Fjöldatakmarkanir gilda ekki um almenningssamgöngur, hópferðabifreiðar, innanlandsflug, farþegaferjur og störf viðbragðsaðila, svo sem lögreglu, slökkviliðs, hjálparliðs almannavarna og heilbrigðisstarfsfólks. Enn fremur gildir ákvæðið ekki um störf Alþingis og þegar dómstólar fara með dómsvald sitt.

Mikilvægt er að kynna sér leiðbeiningar um rými utanhúss og innandyra vegna COVID-19, sjá HÉR

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir