Spennandi mynd um Sundið í Króksbíó

Heimildamyndin Sundið eftir Jón Karl Helgason var sýnd í Króksbíói á Sauðárkróki í gærkvöldi að viðstöddu fjölmenni sem klöppuðu henni lof  í lófa að sýningu lokinni. Sundið segir frá spennandi kapphlaupi nafnanna Benedikts Hjartarsonar og Benedikts Lafleur um hvor þeirra verði fyrsti Íslendingurinn til að synda yfir Ermarsundið – Mount -Everest sjósundsins.

Í bland við hina æsispennandi glímu við erfiðasta sund í heimi, tvinnar myndin myndskeiðum af sögulegum sundum og viðburðum í lífi þjóðar þar sem hafið leikur stórt hlutverk. Þar á meðal eru myndskeið úr Skagafirði þar sem náttúran skartar sínu fegursta.

Margar forvitnilegar staðreyndir eru dregnar fram um sund og kunnáttuleysi í þeirri íþrótt og sem dæmi þá drukknuðu 5354 Íslendingar frá árinu 1880 til 1990, margir vegna þess að þeir kunnu ekki að synda.

Vel er hægt að mæla með bíóferð því Sundið heldur manni allan tímann og er spennandi þrátt fyrir að vitað sé fyrirfram hver varð fyrstur Íslendinga að komast yfir Ermasundið. Myndin var frumsýnd í Bíó Paradís sl. fimmtudag og fékk mjög góða dóma.

Myndin verður sýnd aftur í Króksbíói annað kvöld, þriðjudaginn 23. okt. kl. 20:00 og kannski oftar.

Gagnrýni á Vísi.is

Hér má sjá myndbrot úr Sundinu.

http://vimeo.com/50161721#

Fleiri fréttir