Startup Landið – tækifæri fyrir frumkvöðla á Norðurlandi vestra

Guðlaugur Skúlason. Mynd aðsend.
Guðlaugur Skúlason. Mynd aðsend.
Það þarf ekki stórt skrifborð eða flókið umhverfi til að hugmynd fæðist – stundum dugar eldhúsborðið. En hvernig breytir maður hugmynd í raunverulegan rekstur? Í haust fá frumkvöðlar á Norðurlandi vestra og víðar tækifæri til að taka fyrsta skrefið í nýju verkefni sem nefnist Startup Landið – viðskiptahraðall landshlutasamtakanna. Umsóknarfrestur stendur til 31. ágúst. Nánar á www.startuplandid.is
 
Stuðningur frá SSNV
Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV) styðja frumkvöðla úr landshlutanum sem taka þátt í hraðlinum. Tvær hugmyndir verða valdar áfram fyrir hönd Norðurlands vestra og fá þátttakendur stuðning SSNV á meðan á verkefninu stendur.
 
Hvað er viðskiptahraðall?
Viðskiptahraðall er tímabundið verkefni þar sem einstaklingar með frumlegar hugmyndir fá leiðsögn og stuðning til að þróa þær áfram – allt frá hugmynd á blaði til raunverulegs fyrirtækis. Markmiðið er að kanna hvort hugmyndin standist, geti skapað tekjur, sparnað eða jafnvel ný störf.
 
Nám, handleiðsla og tengslanet
Startup Landið hefst 18. september með rafrænum vinnustofum sem fara fram tvisvar í viku í sex vikur. Þátttakendur fá handleiðslu frá reyndum frumkvöðlum, fræðslu um hugmyndavinnu og tækifæri til að byggja upp tengslanet.
Staðlota verður haldin í Hveragerði 25.–26. september, þar sem öll teymi víðsvegar af landinu hittast í eigin persónu. Lokahátíðin fer svo fram í Hofi á Akureyri í fimmtudaginn 30. október. Þar fá teymin að kynna hugmyndir sínar fyrir fjárfestum og hlýtur ein hugmynd sérstakan stuðning frá landshlutasamtökunum.
 
Þátttaka án endurgjalds
Öll þátttaka í hraðlinum er án endurgjalds. Ferðakostnaður er niðurgreiddur og gisting, matur og fræðsla er innifalið. „Á Norðurlandi vestra er fjöldi hugmyndaríkra einstaklinga og við hjá SSNV viljum sjá þær hugmyndir vaxa og dafna. Með þátttöku í Startup Landinu fá einstaklingar verkfæri og stuðning til að þróa hugmyndina sína áfram. Ég hvet því alla sem hafa hug á að prófa sig áfram að sækja um – því það kostar ekkert að taka þátt, en getur skilað miklu,“ segir Guðlaugur Skúlason, verkefnastjóri nýsköpunar hjá SSNV.

Fleiri fréttir