Stefán Pedersen látinn

Stebbi Ped í afgreiðslunni á ljósmyndastofu sinni við Aðalgötuna á Króknum árið 2014. MYND: BERGLIND ÞORSTEINS
Stebbi Ped í afgreiðslunni á ljósmyndastofu sinni við Aðalgötuna á Króknum árið 2014. MYND: BERGLIND ÞORSTEINS

Stefán Pedersen ljósmyndari og listamaður lést á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Sauðárkróki laugardaginn 9. september. Eftir hann liggur fjöldi frábærra ljósmynda sem skrásetja lista- og mannlífið á Sauðárkróki og í Skagafirði í rúma hálfa öld. Ekki síst voru myndir hans fyrir Leikfélag Sauðárkróks hrein listaverk.

Stefán fæddist á Sauðárkróki 7. desember 1936 en foreldrar hans hétu Sigríður Sigurlína Halldórsdóttir og Johan Pedersen. Hann kvæntist Ingibjörgu Lúðvíksdóttur árið 1966 og eignaðist með henni soninn Árna Ragnar. Ingibjörg lést fyrir tæpum 20 árum.

Hann hóf ungur nám í bakaraiðn en veiktist skömmu síðar af berklum og var ár á Kristnesi. Þegar heim kom varð hann að finna sér annan starfsvettvang og í sumarbyrjun árið 1955 komst hann á samning hjá Sigurði Guðmundssyni ljósmyndara í Reykjavík. Hann opnaði síðan ljósmyndastofu á Sauðárkróki 1958 og starfaði við ljósmyndun alla tíð síðan.

Stefán var mikill golfari, hann var flinkur málari en það var músíkin sem var áhugamál númer eitt. Hann var bráðsnjall á harmoníku og píanó og var einn af stofnendum Jazzklúbbs Sauðárkróks seint á síðustu öld.

Þá var Stefán fyrsti Skagfirðingurinn sem varð þess heiðurs aðnjótandi að hljóta Samfélagsverðlaun Skagafjarðar árið 2016. Heiðurinn hlaut hann ekki síst vegna þess að hann stundaði það að heimsækja sjúkrahúsið á Króknum og lesa fyrir fólkið. Í JólaFeyki sem kom út árið 2014 segir í viðtali við Stefán: Síðustu árin dvaldi Ingibjörg [kona Stefáns] á Heilbrigðisstofnun Sauðárkróks og Stefán vandi komur sínar þangað á hverju kvöldi til að lesa fyrir hana og fleiri vini sína sem þar voru. „Hún hafði kannski minnst gaman af þessu en ég var að lesa fyrir fólkið, þetta voru allt vinir mínir. Eftir að hún dó þá hef ég farið þrisvar í viku. Fólk bíður eftir þessu.“  Ekki lét Stebbi duga að lesa fyrir fólkið. „Þetta er meiriháttar, við syngjum og ég spila stundum á nikkuna fyrir þau, og við erum að fletta í Skagfirskum æviskrám.“ Hann gefur fólkinu nokkrar vísbendingar og svo eiga þau að giska um hvern er verið að tala. „Þau hafa voðalega gaman af því, þau eru ótrúlega dugleg og það er sjaldan sem þau standa á gati,“ sagði Stefán í viðtali við Berglindi Þorsteinsdóttur í Feyki.

Nú er unnið að því á Héraðsskjalasafni Skagfirðinga að skrásetja myndasafn Stefáns Pedersen sem er mikið að vöxtum og segir mikla og langa sögu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir