Steinn Þ. Steinsson dýralæknir látinn
Steinn Þ. Steinsson, fyrrverandi héraðsdýralæknir, lést hinn 24. þessa mánaðar, 79 ára að aldri. Hann fæddist í Reykjavík hinn 4. febrúar 1931, sonur hjónanna Þorkels Steinssonar og Margaret (Ritu) Steinsson, f. Ritchie, en hún var frá Pennan í Skotlandi.
Steinn varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1952. Á menntaskólaárunum lék hann í Herranótt en stundaði einnig knattspyrnu af kappi. Hann varð fjórfaldur Íslandsmeistari með meistaraflokki KR á „gullaldarárunum“ milli 1948 og 1952 og hafði áður orðið Íslandsmeistari í öllum yngri flokkum.
Veturinn 1952-1953 stundaði Steinn nám í læknisfræði við Háskóla Íslands, en haustið 1953 hélt hann til Kaupmannahafnar og hóf þar nám í dýralækningum.
Eftir lokaprófið árið 1959 var Steinn aðstoðardýralæknir hjá Jóni Pálssyni á Selfossi um skeið en hélt þá til Kaupmannahafnar á ný og starfaði við almenna sýklafræði við Det Veterinære Serumlaboratorium.
Árið 1960 var hann skipaður héraðsdýralæknir í Skagafirði. Því starfi gegndi hann í tæp 30 ár en árið 1989 var honum veitt embætti héraðsdýralæknis í Gullbringu- og Kjósarsýslu sem hann sinnti til ársins 1999. Hann stóð að stofnun og byggingu Dýraspítalans í Víðidal og vann þar í hlutastarfi um nokkurra ára skeið, og þar lauk hann farsælum starfsferli sínum.
Steinn var annálaður dýralæknir, ekki síst fyrir lækningar á kúm, kindum og hrossum. Þá hafði hann yndi af útiveru og veiðiskap.
Kona Steins var skólasystir hans úr menntaskóla, Þorgerður Friðriksdóttir, f. 1932. Þau eignuðust fjögur börn. Þorgerður lést um aldur fram árið 1983. Vinkona Steins hin síðari ár var Bryndís Guðmundsdóttir.
Steinn verður jarðsunginn frá Fossvogskirkju miðvikudaginn 1. september kl. 13
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.