,,Stekk á fólk í nýju prjónlesi og grátbið um nafnið á uppskriftinni,,

Íris Olga Lúðvíksdóttir býr í Flatatungu frammi á Kjálka með Einari sínum Gunnarssyni. Þau eiga þrjú og hálft uppkomið barn sem öll eru langt komin til manns, vel gerð og viti borin sem þau eru. Við búum með sauðfé, nokkur hross og þrjár tíkur og svo sinni ég uppfræðslu barna í framhéraðinu, er með starfsstöð í Varmahlíðarskóla.

Hvernig byrjaðir þú og hve lengi hefur þú stundað hannyrðir? Ætli ég sé ekki eins og margir aðrir prjónarar, lærði að fitja upp á hjá ömmu og/eða mömmu, prjónaði misgóð stykki í grunnskóla og svo fékk ég smá æði á unglingsárunum. Prjónaði þá nokkrar peysur, sumar sem ég á meira að segja enn og nota. Ekki oft þó.

Hvaða handavinna þykir þér skemmtilegust? Ég fyrst og fremst prjóna, er frekar lítt reyndur heklari og glötuð á saumavél, áhugasamir geta spurt nemendur í textílvali sem hafa fengið mig sem afleysingakennara

Hverju ertu að vinna að um þessar mundir? Ég er að vinna með ungbarnaþrennu, það eru þrjú börn í fjölskyldu- og vinaradíusnum sem eru mislangt komin í heiminn. Ég er að reyna að myndast við að prjóna a.m.k. peysu og húfu á hvert þeirra, þ.e.a.s. ef ég hef mig í gegnum X#$%” húfuuppskriftina sem ég valdi.

Hvar færðu hugmyndir? Fyrir það fyrsta prjóna ég aldrei upp úr sjálfri mér (fyrir utan eina peysu sem ég prjónaði á 15. ári mínu og á enn!) þannig að ég er örugglega eins og margir prjónarar, fletti gegnum blöð og samfélagsmiðla eða stekk á fólk í nýju prjónlesi og grátbið um nafnið á uppskriftinni. Undanfarin ár hef ég líka búið svo vel að geta ráðfært mig við ofurprjónavinkonur mínar, þær Laufeyju Haralds og Svönu Páls. Við þrjár höldum úti jútúbþætti, Band & bækur, þar sem við ræðum prjón og bækur, aðallega prjón þó. Það er nokkuð ljóst að af okkur þremur læri ég langmest því afköst þeirra og fjölbreytni í verkefnavali er nokkrum ljósárum meir en ég næ.

Hvaða handverk sem þú hefur unnið ertu ánægðust með? Ég er venjulegast ánægð með allt það sem mér tekst að klára þannig að það passi á þann sem á að fá flíkina, hvort sem það er ég eða aðrir. Þessa dagana er ég voða svag fyrir finnskum hönnuðum og það er ekki bara af því ég held svo upp á landið og tungumál! Ég er mjög sátt með lopapeysuna Hiutaleneule frá Villahullu (sem þýðir prjónabrjáluð á finnsku – oh, elska finnsku!) úr Álafosslopa og jafnánægð með fínni gatamunsturpeysuna Kuutar (jú, það ku útleggjast sem tunglgyðja) eftir Saari Nordlund. Svo langar mig að prjóna fleira með brioche-munstur, sem ég tel nokkuð víst að sé bara gamla góða klukkuprjónið á sterum. Eitt af mínum uppáhaldssjölum er einmitt Baubles eftir Andreu Mowry en hún notar stundum Brioche í hönnunina sína.

Eitthvað sem þú vilt bæta við? Jahá, ég er u.þ.b. að farast úr tilhlökkun að fá til baka sex reyfi af okkar lömbum sem smáspunaverksmiðjan Uppspuni breytti í fínasta garn. Nú þarf ég bara að læra að lita eitthvað af þessum heimaræktaða léttlopa – svo fer ég að dæla út lopapeysum.

Áður birst í tbl. 9 Feykis 2023.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir