Stjórn félags yfirlögregluþjóna mótmælir
Stjórn félags yfirlögregluþjóna hefur skrifað dómsmálaráðherra bréf þar sem þeirri ákvörðun að vísa Kristjáni Þorbergssyni, yfirlögregluþjóni á Blönduósi, úr starfi er mótmælt harðlega.
Þar er meðal annars vísað í lög um réttiindi og skyldur opinberra starfsmanna og minnt á að lögreglumenn séu embættismenn og eigi þar af leiðandi ríkari rétt og öryggi í starfi en almennir ríkisstarfsmenn. Bent er á að uppsögnin gangi í berhögg við viðteknar skýringar á lögum þar að lútandi. Er ennfremur vísað í samkomulag það sem gert var árið 2007 við Björn Bjarnason, þáverandi dómsmálaráðherra, um að ekki yrði brugðist við endurskipulagningu á yfirstjórn með uppsögnum, heldur með því að ekki yrði ráðið í stöður að nýju þegar menn færu á eftirlaun. Er þess einnig krafist að dómsmálaráðherra leiðrétti þessar gjörðir lögreglustjórans á Norðurlandi vestra. Þetta kom fram í hádegisfréttum RÚV í dag.
Sveitarstjórn Blönduóss gerði einnig svohljóðandi bókun á fundi sínum þann 30. maí: „Sveitarstjórn Blönduósbæjar mótmælir harðlega fyrirvaralausri brottvikningu yfirlögregluþjóns Kristjáns Þorbjörnssnar úr starfi sínu. Annars vegar er hér um dæmalausa aðför að heiðvirðum lögregluþjóni og hins vegar niðurskurður í löggæslustarfssemi á landsbyggðinni án undirbúnings eða samráðs við heimamenn.“