Stór tímamót í heimaslátrun örsláturhúsa - „Ég trúi ekki að fólk sjái ekki tækifærin í þessu,“ segir Þröstur í Birkihlíð

Guðjón Karlsson og Jón Sigurjónsson gera að einum lambaskrokknum í fyrstu löglegu heimaslátrun örsláturhúsa. Mynd: Ragnheiður Lára Brynjólfsdóttir.
Guðjón Karlsson og Jón Sigurjónsson gera að einum lambaskrokknum í fyrstu löglegu heimaslátrun örsláturhúsa. Mynd: Ragnheiður Lára Brynjólfsdóttir.

Síðastliðinn föstudag urðu þau tímamót í Íslandssögunni að slátrun fór fram í svokölluðu örsláturhúsi í fyrsta sinn á Íslandi með leyfi yfirvalda. Það eru hjónin Ragnheiður Lára Brynjólfsdóttir og Þröstur Heiðar Erlingsson í Birkihlíð í Skagafirði sem í nokkur misseri hafa staðið í ströngu við að ná því í gegn hjá íslensku reglugerðarkerfi að löglegt verði að slátra heima að undangengnum skilyrðum um ásættanlegar aðstæður og búnað til verksins og frágang afurða og úrgangs.

Þröstur segir að fáu hafi verið lógað í þetta skiptið eða átta lömbum, rétt til að koma sér af stað, og vel hafi gengið. Hann segir að meiningin sé að slátra aftur í þessari viku og þá líklega mun fleiri lömbum eða 30-40.

„Við höfum beðið með nokkur lömb til þess að slátra ef þetta hefði hafst. Leit nú ekki þannig út á tímabili,“ segir hann en mörg ljón hafa verið í veginum frá því farið var af stað með þetta verkefni.

Enn er fólki í fersku minni þegar slátrun fór fram í Birkihlíð haustið 2018 með stuðningi Sveins Margeirssonar, sem þá var forstjóri MATÍS. Leiddi það til þess að hann var kærður til lögreglu af Matvælastofnun sem óskaði eftir rannsókn á markaðssetningu á því heimaslátraða lambakjöti sem boðið var til sölu á bændamarkaði á Hofsósi viku síðar. Það er kannski kaldhæðni örlaganna að leyfið nú skyldi fást réttu ári eftir að Sveinn Margeirsson var sýknaður í örslátrunarmálinu, sem svo var kallað, en dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Norðurlands vestra þann 20. október 2020.

Þröstur segist hafa fundið fyrir hugarfarsbreytingu hjá starfsmönnum MAST sem væru miklu jákvæðari fyrir þessum hlutum nú en áður. „Maður vonar bara að það haldi áfram, að það verði ekki eitthvað þegar fram líða stundir. Enda er reglugerðin skýr svo þetta er nokkuð ljóst hvernig á að vera. Auðvitað verða þeir sem fara út í þetta að hafa vinnslu á bak við sig. Þetta er ekki bara að slátra.“ Þröstur segir að slátrunin fari fram í vinnslunni eftir að skepnunum hafi verið lógað úti og kjötið síðan hanterað fyrir sölu.

Þrátt fyrir að nú sé hægt að afla sér leyfis til heimaslátrunar býst Þröstur ekki við að bændur landsins flykkist í þessa framleiðslu. Segist hann vita um þrjá aðra aðila sem ætli sér það en margir sjái ofsjónum yfir reglugerðarfarganinu sem þessari leyfisveitingu fylgir. „Menn hljóta samt að átta sig á því að þegar þeir eru komnir með alla virðiskeðjuna heim til sín hljóti það að skipta máli. Ég trúi ekki að fólk sjái ekki tækifærin í þessu.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir