Störf handa þúsundum. - Frjálsar handfæraveiðar.
feykir.is
Skagafjörður, Austur-Húnavatnssýsla, Aðsendar greinar, Vestur-Húnavatnssýsla
20.02.2009
kl. 08.11
Eins og ástandið er núna í landinu hljótum við að íhuga það alvarlega hversu margir gætu fengið atvinnu við það að fara á handfæri. Í landi þar sem 15.000 manns eru atvinnulausir hlýtur það að vera bilun að gefa ekki handfæraveiðar frjálsar á næsta sumri. Þó þessi atvinnugrein hafi átt undir högg að sækja eru enn margir til sem kunna vel til verka og mjög auðvelt er að kenna ungum mönnum að veiða fisk með þessum hætti. Það er líka deginum ljósara að þessar veiðar eru mjög vistvænar og skapa auðvitað mörg störf í ofanálag og tilkostnaður margfalt minni en á stórum skipum.
Hvað er dapurlegra en að vera atvinnulaus, skuldum vafinn og standa á bryggjusporðinum, horfa út fjörðinn eða flóann og vita að þarna er lífsbjörg en mega ekki veiða einn einasta fisk til þess að skapa sér tekjur. Ég efast um að slík staða sé til í nokkur öðru landi í heiminum en hér. En hér má engu breyta, alls engu. Þeir sem vilja veiða á smábátum skulu hafa kvóta og engar refjar með það og ef þeir eiga engan kvóta þá skulu þeir gera svo vel að borgar 10 fiska fyrir að veiða 12. Þetta er auðvitað ömurlegt lénskerfi sem neytt hefur verið upp á þjóðina á örfáum árum og keppat nú hagfræðingar við að segja að sölu og leigukerfi kvótans sé í rauninni upphafið að efnahagshruni Íslands.
Lög stéttaskiptingar.
Já, það hefur verið eftirtekarvert að sjá hvernig lögin um stjórn fiskveiða hafa gert þorp og bæi að stéttskiptum samfélögum. Í rauninni er það þannig ,að gjá, sem ekki var fyrir, hefur myndast á milli þeirra, sem hafa veiðiréttinn og hinna, sem engan hafa. Það þarf ekki nema að líta í kring um sig til að sjá þetta og því miður hefur þetta líka leitt til pólitísks ótta hjá mörgu fólki sem ég hef hitt. Og hverjum líður svo vel með þetta. Líður þeim vel sem hafa kvótann undir höndum? Það efast ég um, enda eru margir þeirra líka fórnarlömb kvótakerfisins vegna skulda sinna. Eða hinum, líður þeim vel? Ekki heldur. Við verðum að stíga út úr óttanum og taka höndum saman um endurreisn Íslands. Og íslenskir útgerðamenn verða að taka þátt í því. Ég skora á LÍÚ að fara nú að koma til leiksins á nýjum forsendum og nýrri hugsun. Og ganga af þeirri braut sem hefur leitt okkur til einhæfni, samþjöppunar og einokunar. Við verðum að vakna.
Áþreifanleg aðgerð.
En á meðan við erum vöknum af þessum draumi, sem varð martröð, skulum við segja við ungu drengina okkar og ungu konurnar okkar: „Nú ætlum við að leyfa frjálsar handfæraveiðar eftir skynsamlegum reglum, við skulum leyfa veiðar á 15.000 tonnum.“ Það myndi gefa nokkrum þúsundum atvinnu, það myndi gefa von, bjartsýni og gleði. Slíkt er áþreifanleg aðgerð. Við getum séð fyrir okkur til dæmis ung hjón sem eru að koma að landi á trillunni sinni með nokkur hundruð kíló af fiski eftir góðan dag. Já, umvafin eru þau gleði og lífstilgangi. Og þetta er hægt að gera með einfaldri lagsetningu jafnvel reglugerðarbreytingu. Það er ekki eftir neinu að bíða. Tökum okkur á, verum ekki hrædd, sýnum hugrekki og leyfum fólki að bjarga sér landi og lýð til heilla. Vilji er allt sem þarf.
Karl V. Matthíasson, alþingismaður.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.