Sumar bækur Laxness væri gott að lesa árlega

Gísli grípur í bók. MYND AÐSEND
Gísli grípur í bók. MYND AÐSEND

Gísli Þór Ólafsson er maður margra lista. Hann er skáld, tónlistarmaður og hefur einnig leikið með Leikfélagi Sauðárkróks. Það var því ekki annað hægt en að plata hann í að svara Bók-haldinu. Gísli, sem er af árgangi 1979, er fæddur og uppalinn á Sauðárkróki og er í hjónabandi með Guðríði Helgu Tryggvadóttur en saman eiga þau einn strák.

Gísli er með BA í almennri bókmenntafræði og starfar sem skjalavörður á skjalasafni sendiskrifstofa Utanríkisráðuneytisins á Sauðárkróki með-fram því að semja ljóð, lög og eftirtektarverðar Fésbókar-færslur. Hann situr sjaldnast auðum höndum og stefnir á útgáfu nýrrar ljóðabókar með haustinu. Nú í vetur sendi hann frá sér lagið um Seppe Jensen en alls hefur Gísli sent frá sér fimm hljómplötur og sjö ljóða-bækur og eina safnbók að auki.

Hvaða bók ertu að lesa núna? „Ég er að lesa nýjustu bók Jóns Kalmans, Gula kafbátinn. Bítlatengingin þar er að mínu skapi. Reyndar er ljóðrænan í Jóni Kalman eitthvað sem ég er mjög heillaður af og einnig þessi undirliggjandi mannlegi tregi sem einkennir bækur hans. Að öðru leyti eru bækur eftir spænska skáldið Federico García Lorca á náttborðinu hjá mér, tvímála útgáfur á spænsku og íslensku.“

Hver er uppáhaldsbókin af þeim sem þú hefur lesið gegnum tíðina? „Líklega má segja Svefnhjólið (1990) eftir Gyrði Elíasson, en ég er mikill aðdáandi Gyrðisbóka og hef verið allt frá framhaldsskóla-árunum. Blái lótusinn (Tinna-bók) hefur líka verið í uppáhaldi undanfarin 35 ár eða svo. Engill, pípuhattur og jarðarber (1989) eftir Sjón er eitthvað sem kveikti á framhaldsskóla-árunum og var uppáhaldsbók okkar Ísabellu vinkonu minnar á þeim árum. Framhaldsskólaárin voru dáldið bókmenntatengd og á þeim árum kynntist ég Geirlaugi Magnússyni en hann kenndi mér við fjöl-brautaskólann hér á Krók.“

Hvers konar bækur lestu helst? „Ljóðabækur, skáldsög-ur og smásögur auk endurminninga tónlistarmanna og er ég veikur fyrir listaverkabókum og bókum um myndlistarmenn.“

Hvaða bækur voru í uppáhaldi hjá þér þegar þú varst barn? „Man eftir bókasafnsferðum með foreldrum mínum og hvað ég leit alltaf í sömu bækurnar aftur og aftur en man ekki hvað þær heita, en voru um fólk og hvað það gerir í daglegu lífi, allt í myndum meira og minna. Einnig rámar mig í spæjarabók fyrir börn. Undanfarið hef ég verið að endurupplifa þessa stemningu í gegnum strákinn minn. Rámar líka í endurminningabækur um John Lennon og að ég hafi tekið þær ansi oft á bókasafninu er fór að nálgast unglingsárin.“

Hvaða bók er ómissandi eða er einhver ein bók sem hefur sérstakt gildi fyrir þig? „Flestar bækur Gyrðis eru ómissandi. Man á framhaldsskólaárunum er Teitur vinur minn gaf mér smásagnabókina Tregahornið (1993) eftir Gyrði í afmælisgjöf og einnig er við Ísabella héldum mikið uppá bók Sjóns, Engil, pípuhatt og jarðarber. Þó er ein bók sem vaknar upp í minninu, en það er bókin Tataraþulur (Romancero gitano) eftir Federico García Lorca í þýðingu Þorgeirs Þorgeirssonar, en ég gluggaði iðulega í hana er ég fór á bókasafnið og tók hana mjög oft. Eignaðist sjálfur eintak fyrir nokkrum árum og er gaman að geta þess að Leonard Cohen syngur lag við uppáhalds ljóðið mitt úr bókinni á sinni seinustu plötu. Þannig tengjast mínar helstu ástríður, tónlistin og bókmenntirnar. Í því samhengi má einnig nefna bók Geirlaugs, Þrítengt (1996), en sumarið 2013 kom út diskurinn Bláar raddir sem inniheldur lög mín við tíu ljóð úr þeirri bók.“

Hvaða rithöfundar eða skáld fá hjartað til að slá örar? „Gyrðir Elíasson er fremstur í flokki þar. Kaupi alltaf nýjar bækur eftir hann. Sjón er líka spennandi, en síðastliðið vor var ég staddur í Skagfirðingabúð og sá þar skyndilega nýja ljóðabók eftir Sjón sem ég vissi ekki af (sem er sjaldgæft á samfélagsmiðlatímum) og fannst mér þetta eins og upplifun sem ég hafði ekki upplifað í nokkra áratugi. Keypti hana samstundis.“

Áttu þér uppáhalds bókabúð? „Alltaf verið stemning í Máli og menningu syðra og þegar ég var yngri var það Bókabúð Brynjars hér á Króknum.“

Hversu margar bækur held-urðu að þú eignist árlega? „Sennilega í kringum 20. Kaupi oft ljóðabækur og alltaf nýjar bækur eftir Gyrði og Sjón, sem dæmi. Les þær ekki alltaf allar, en finnst gott að glugga í, sérstaklega ljóðabækur.“

Ertu fastagestur á einhverju bókasafni? „Var fastagestur á Héraðsbókasafni Skagfirðinga sem barn og unglingur og einnig á fullorðinsárum og vann í tíu ár á Héraðsskjalasafninu og því stutt í bókasafnið á hæðinni fyrir ofan. Á þessu ári hafa þetta svo verið ca. vikulegar heimsóknir með konunni og litla stráknum okkar. Á háskólaárunum var það Þjóðarbókhlaðan syðra.“

Hvaða bók heldurðu að þú hafir lesið oftast? „Smásögur Gyrðis og Svefnhjólið. Einnig las ég Laxness markvisst á árunum 2007-2010 og sumar hans bækur hafa þannig áru yfir sér að gott væri að lesa þær árlega.“

Hvaða bækur lestu fyrir strákinn þín?Múmínálfana, bækur um bókstafi, plánetur og dýr.“

Hefur þú heimsótt staði sérstaklega vegna þess að þeir tengjast bókum sem þú hefur lesið? „Gyrðisvellir (leikvöllur við uppeldisheimili Gyrðis) eru oft spennandi og sérstök orka í loftinu sem ég tengi við uppeldisheimili Gyrðis Elíassonar. Geirlaugur átti einnig einu sinni heima vestast á heimavistinni (vestan við mötuneytið) og tengi ég bók hans Nýund (2000) við þá íbúð, en bæði fékk ég að glugga í handritið þar og einnig keypti ég áritað eintak af honum í íbúðinni og labbaði svo með það heim í gegnum skóginn. Annar staður er Kirkjutorgið en stundum þegar verið er að tendra jólatréð þar dettur mér í hug Hannes Pétursson en hann ólst upp á þessum slóðum í Suðurgötu 2.“

Hver er eftirminnilegasta bókin sem þú hefur fengið að gjöf? „Nefndi hér að ofan Tregahornið eftir Gyrði sem Teitur gaf mér á framhalds-skólaárunum og Engil, pípuhatt og jarðarber eftir Sjón sem Ísabella gaf mér á svipuðum tíma. Annars fæ ég iðulega bækur í jólagjöf frá móður minni og eru það höfundarnir Sjón, Bragi Ólafsson og Jón Kalman. Geirlaugur gaf mér þrjár ljóðabækur eftir sig árið 2001, áritaðar, Undir öxinni (1980), Án tilefnis (1982) og Áleiðis áveðurs (1986). Gaman er að geta þess að einhverju sinni sá ég að bók Geirlaugs, Sannstæður (1990) væri fáanleg í fornbókabúð með hörðum kili. Ég átti fyrir kiljuútgáfuna og vissi satt best að segja ekki af þessari harðspjaldaútgáfu. Konan mín, Guja, vildi gefa mér þessa útgáfu í bóndadagsgjöf og var farið í pöntun. Fékk ég þá senda kiljuútgáfuna. Sendi tölvupóst og nefndi þetta og fékk ég rétta útgáfu senda og að halda kiljuútgáfunni. Ég á því þrjú eintök af þessari ljóðabók Geirlaugs.“

Hvað er best með bóklestri? „Kaffi og rólegheit.“

Ef þú ættir að gefa einhverjum sem þér þykir vænt um bók, hvaða bók yrði þá fyrir valinu? „Dettur í hug áðurnefnd bók eftir Sjón, Engill, pípuhattur og jarðarber, en einnig nýjasta ljóðabók Rakelar Hinriksdóttur, Hringfari.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir