Sveitarfélagið tekur gamla RKS húsið á leigu
Á síðasta fundi byggðaráðs Skagafjarðar var lagður fram húsaleigusamingur á milli Sveitarfélagsins Skagafjarðar og Kaupfélags Skagfirðinga um atvinnuhúsnæði að Borgarflöt 27, Sauðárkróki, gamla RKS húsið. Skiptar skoðanir voru um ágæti samnngsins.
Þeir nafnar Gísli Árnason og Gísli Sigurðsson vildu meina að frá birtingu auglýsingar eftir atvinnuhúsnæði þann 18. mars hefur byggðarráð ekkert verið upplýst hvort og þá hverjir buðu fram húsnæði og létu bóka eftirfarandi:
"Sveitarfélagið Skagafjörður auglýsti eftir atvinnuhúsnæði þann 18. mars síðastliðinn, sem sveitarstjóri kynnti fulltrúum byggðaráðs sama dag, vegna fyrirspurnar um málið.
Fyrir þessum fundi liggur samningur undirritaður með fyrirvara, milli Sveitarfélagsins Skagafjarðar og Kaupfélags Skagfirðinga, dags. 17. maí síðastliðinn, til rúmlega þriggja ára að verðgildi 18 milljónir króna án vsk. Samkvæmt samþykktum sveitarfélagsins fer byggðarráð með fjármálaumsýslu sveitarfélagsins. Frá birtingu auglýsingarinnar hefur byggðarráð ekkert verið upplýst hvort og þá hverjir buðu fram húsnæði, með hvaða kjörum og yfirleitt enga aðkomu haft af þessu máli. Byggðarráð hefur engar upplýsingar um hvaða kostir eru í boði. Rétt og skylt er einnig að bera slíkan samning undir byggðaráð áður en hann er undirritaður af hálfu sveitarfélagsins. Þetta eru ótæk vinnubrögð meirihlutans og með öllu ólíðandi."
Þórdís Friðbjörnsdóttir og Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir töldu að skjálfti væri í mönnum vegna komandi kosninga því að þeirra mati lágu upplýsingar og rökstuðningur málsins fyrir fundinum og óskuðu að bókað yrði eftirfarandi:
"Það er ljóst miðað við bókun minnihlutans að það líður að sveitarstjórnarkosningum og skjálfti í mönnum. Sveitarfélagið hefur lengi leitað að hentugu leiguhúsnæði fyrir ýmsa starfsemi. Með tilkomu á leigu húsnæðisins að Borgarflöt 27, fæst húsnæði sem hentar starfsemi sveitarfélagsins afar vel og gefur tækifæri til hagræðingar og endurskipulagningar húsnæðismála til framtíðar litið. Starfsmenn hafa unnið af heilindum að þarfagreiningu og horft til hagsmuna sveitarfélagsins. Fyrir fundinum liggur greinargerð með nægjanlegum
upplýsingum og rökstuðningi sem sýnir að sú stefnumörkun sem allir flokkar hafa verið sammála um fram að þessu hafi náðst. Húsnæðið uppfyllir þær kröfur sem leitað var eftir. Annað húsnæði sem boðið er hentar ekki eins vel, miðað við þær forsendur og þarfagreiningu sem lagt hefur verið upp með og því óþarft að bíða með frekari ákvörðun í málinu."
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.