Textílverk Philippe Recart á sumarsýningu Heimilisiðnaðarsafnsins

Yfirlitssýning á textílverkum Philippe Recart opnar á morgun 7. júní kl. 16:30 í Heimilisiðnaðarsafninu á Blönduósi og stendur út ágústmánuð. Sumaropnun safnsins hófst þann 1. júní og er opið alla daga frá kl. 10 til 17:00. Á Facebook-síðu Heimilisiðnaðarsafnsins segir að Philippe hafi verið einstakur handverks- og listamaður sem lagði áherslu á að viðhalda gömlum íslenskum handverkshefðum sem og að nota íslenskt hráefni og efnivið eins og kostur var.

Á heimasíðu Heimilisiðnaðarfélagsins var Philippe minnst á seinasta ári þegar 70 ár voru liðin frá fæðingu hans en hann lést í Reykjavík 26. júlí 2021. „Philippe hóf að kenna við skóla Heimilisiðnaðarfélagsins árið 1995 og kenndi þar í áratugi námskeið í myndvefnaði, spjaldvefnaði, leðursaumi og tálgun ýsubeina. Hann var afar traustur og góður kennari, lét sér annt um nemendur sína og var einstaklega ljúfur maður með skemmtilegan húmor. Philippe var einstaklega fær handverksmaður og margir eru svo lánsamir að eiga vandaða og fallega listmuni eftir hann eins og spjaldofin bókamerki, lyklakippur og fugla úr ýsubeinum. Áhugi Philippe á fuglum og íslenskri náttúru kom sterkt fram í verkum hans og má í því sambandi nefna hönnun hans á útsaumspakkningum með myndum af íslenskum fuglum en þeim fylgdi band sem hann jurtalitaði.“ Sjá nánar HÉR

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir