„Það er alltaf allt í boði í tónlist, það er það besta við hana“ / EDDA BORG

Edda Borg Stefánsdóttir frá Sauðárkróki er nú búsett á Akureyri. Hún er uppalin á Króknum, fædd 1991. „Ég er dóttir Stebba Gauks, starfar sem töframaður í Loðskinn, kenndur við Gauksstaði á Skaga, og Ollu Dísar, dóttir Gígju og Árna heitinna á Hólmagrund.“

Röddin er aðal hljóðfæri Eddu en einnig spilar hún á píanó og gítar. „Mig langar að læra á kontrabassa og blásturshljóðfæri líka, það er alltaf hægt að bæta við sig!“ segir hún eldhress. Helsta afrekið í tónlistinni segir hún einfaldlega hafa verið drífa sig loksins til að semja og fara í söngnám. Ég tek grunnpróf í Tónlistarskóla Akureyrar núna í apríl. Annars var auðvitað mjög skemmtilegt að fá að vera Tarantúla með Arnari og Helga,“ segir Edda og vísar þar í lagið Tarantúlur með Úlfur Úlfur.

Hvaða lag varstu að hlusta á? Sissy That Walk með RuPaul, dásamleg dragdrottning sem er með þáttaröð í anda ANTM. Ég var að horfa á nýjasta þáttinn rétt í þessu.

Uppáhalds tónlistartímabil? Æh, ég fýla í alvörunni eitthvað af öllu, kann svo innilega að meta hvernig þetta breytist allt saman og vil halda í fjölbreytnina, en sjöundi áratugurinn var allavega mjög mikilvægur í tónlist.

Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? Þessa dagana eru það rappettur sem sperra eyrun uppá innblástur, Jenelle Monáe, ANTI nýja platan með Rihanna og Coldplay þar sem ég og Halla systir erum að fara á þá í sumar! Svo virðist ég alltaf vera með eitt lag sem ég gjörsamlega spila aftur, aftur og aftur. Núna er það Gangsta með Kat Dahlia. Annars er ég nýbúin með langt skeið af Pentatonix, sem er ótrúlega skemmtilega blandaður hópur sem notar engin hljóðfæri, bara raddir.

Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? Ég fékk nú ekkert tónlistaruppeldi, ef það er orð? En í dag er það hvað sem ég set á, sem er oftast jazz eða rapp, við erum bara tvö á heimilinu og Ómar kærastinn minn er álíka músíkalskur og gafall :-)

Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? Ég þori ekki að fara með það en allar líkur á Bob Marley eða Red Hot Chili Peppers.

Hvaða græjur varstu þá með? Við tvíburarnir fengum litlar græjur í jólagjöf eitthvert árið, með bláum hátölurum. Alveg mega svalar.

Hver var fyrsta platan sem þú óskaðir þér í jólagjöf? Amma Gígja heitin gaf okkur alltaf geisladisk í jólagjöf sem við völdum sjálfar. Ég man ekki hver var fyrst, en man vel eftir Try This með P!nk.

Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn? Þessa dagana skipti ég um stöð ef Seven Years Old með Lukas Graham byrjar. Ég er nokkuð viss um að það séu bara hallærislegir hipstera stælar í mér af því að öllum finnst það gott. Svo spilar inní hvað það fær rosalega mikla spilun og þannig fær maður smá ógeð.

Uppáhalds Júróvisjónlagið? Vávává, besta vinkona mín, Heiða Jonna, er Eurovision sjúk og búin að mata mig vel! Ég held að ekkert toppi Euphoria og Is it True. Annars er Ein bißchen Frieden, sigurlag þjóðverja 1982, eitthvað sem gleður alltaf með sínu dásemdar hallæri!

Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? Þar stendur poppið sig alltaf vel, ef fólk kann textan er það 90% líklegra til að dansa. 

Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? Vá, svo misjafnt, hvetjandi, krúttlegu og nægjusömu Úlfur Úlfur, Ellu Fitzgerald, Led Zeppelin, Amy Winehouse... 

Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? Svarið við þessari spurningu var Coldplay með Höllu systur, hún þá að sjá Coldplay og ég að sjá hana bilast haha. En það verður að raunveruleika í sumar svo nú verð ég að finna eitthvað nýtt, Rihanna með Klöru systur eða Kanye vin okkar Gígju systur!

Hvað músík var helst blastað í bílnum þegar þú varst kominn með bílprófið? Þegar ég rúntaði með strákunum voru það nánast alltaf Foo Fighters eða Sálin og Gospel.

Hvaða tónlistarmaður hefur þig dreymt um að vera? Ég get ómögulega valið einn, gæti blandað 15 listamönnum saman, þangað til ég heyri eitthvað nýtt og vil þá bæta því við. Það er alltaf ALLT í boði í tónlist, það er það besta við hana.

Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út eða sú sem skiptir þig mestu máli? VÓ! Ég ólst ekki upp við neitt af þessu gamla góða svo ég er enn að kynna mér það sjálf. Bubba plöturnar Kona, Sögur 1980-1990 og 1990-2000 voru alltaf í jeppanum hans pabba á ferðalögum, svo ég segi þær.

Sex vinsælustu lögin á Playlistanum þínum?
Yoga
- Janelle Monáe
Don't Wait - Mapei
Gangsta - Kat Dahlia
Summertime - Ella Fitzgerald (er að vinna í því í skólanum)
I Want You - Bítlarnir (er að vinna í því í skólanum)
From Time - Drake (er að vinna í því í skólanum)

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir