Það er draumur að vera með... Multi musica
Síðastliðið föstudagskvöld hélt Multi musica hópurinn tvenna tónleika í Bifröst undir yfirskriftinni Það er draumur að vera með dáta. Uppselt var á báða tónleikana og óhætt að fullyrða að gestir hafi skemmt sér konunglega undir tali og tónum tímenninganna sem dældu gleði af sviði Bifrastar.
Í fyrra dreif Multi musica fólk með sér í heimsreisu með tónleikum og útgáfu á geisladisk með lögum víðs vegar að úr heiminum. Að þessu sinni var stílað inn á stríðsárastemninguna en lögin engu að síður úr mörgum áttum og lét forsöngvari Multi musica, Ásdís Guðmundsdóttir, sig ekki muna um að syngja á hinum ýmsu tungumálum af fádæma öryggi.
Í bakgrunni voru hógværir tónlistarmenn með allt sitt á hreinu. Rögnvaldur Valbergs sá um hljómborð og nikkuleik, Jói Friðriks barði trommur og Margeir bróðir hans plokkaði bassa. Fúsi Ben sá um gítarleik og brassið var á vörum Sveins Sigurbjörns trompetmeistara og Alberts Sölva Óskarssonar saxasnilliings en Albert var sérstakur gestur Multi musica á tónleikunum.
Meðal laga sem tekin voru má nefna Bei mir bist du Schein, White Cliffs of Dover, Lili Marlene, Rum and Coca Cola og Boogie Woogie Bugle Boy. Vera Lynn, Andrews Sisters og Marlene Dietrich voru því í öndvegi í Bifröst en eins og fram kom í máli Írisar Baldvinsdóttur þá er fullyrt að Merlene Dietrich hafi komið fram á tónleikum í Bifröst fyrir breska hermenn og gist á Hótel Tindastóli. Íris söng bakraddir ásamt Jóhönnu M. Óskarsdóttur og Ólöfu Ólafsdóttur og kynnti lögin og greindi skilmerkilega frá stríðsáraástandinu á Króknum og víðar.
Hvað um það – tónleikagestir voru yfir sig ánægðir og var stemningin í Bifröst örugglega ekki síðri nú um 70 árum síðar þegar Multi musica fór í fótspor Marlene.