Automatic For the People með REM í spilaranum í tvö ár / ÓLI BASSA

Óli ásamt Stefaníu Sunnu og Natani Erni. AÐSEND MYND
Óli ásamt Stefaníu Sunnu og Natani Erni. AÐSEND MYND

Að þessu sinni er það Ólafur Heiðar Harðarson, best þekktur sem Óli Bassa, sem svarar Tón-lystinni. Nýverið sagði Feykir frá því að Óli og félagi hans, Héðinn Svavarsson, hefðu gefið út sitt fyrsta lag í byrjun október. Óli er af 1978 árganginum, alinn upp á Sauðárkróki en flutti burt tvítugur. Hann er sonur Bassa (Óla og Gunnu) og Margrétar (Helgu Ástu og Sigurðar Þorsteins), eins og hann segir sjálfur.

Óli segist eiga gítar, Fender, sem safnar ryki en aðspurður um helstu afrekin á tónlistarsviðinu segir hann: „Það er útgáfa á lagi sem heitir Svo birti aftur til sem Jóna Alla syngur. Samdi textann við það lag og gef út. Von á fleirum. Við erum tveir saman í lagahöfundateymi undir nafninu Two Spirits Music sem höfum samið yfir 20 lög og erum að slaka þeim út þessa dagana. Næsta lag er á ensku og svolítið rokkaðra. Stór lager af textum og ég varð að koma þessu út. Konan setti pressu – maður hlustar!“

Hvaða lag varstu að hlusta á? Ég hlusta á allt, en sennilega var ég nú síðast að hlusta á söngkonuna mína í Svo birti aftur til, hana Jónu Öllu. Hún var að gefa út frábært lag, Why Keep on Trying.

Uppáhalds tónlistartímabil? 90’s. 

Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? Hlusta svolítið á rapp og rokk. En lag... úff, erfið spurning fyrir alætu! 

Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? Pabbi var í Bítlunum og öllu bara. Ég erfði Bitlasafnið á tímabili og ætli það sé ekki grunnurinn að öllum áhuga á tónlist. Hugsa það. Annars er ég líka alinn upp við íslenskt og það heillar alltaf. 

Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? REM - Automatic For the People. Keyptur í NY City. Simmi frændi tók eitt stk. og ég gerði eins. Hafði ekki hugmynd um hvað ég hafði verslað en sá ekki eftir því! Var i spilaranum í tvö ár. 

Hvaða græjur varstu þá með? Goldstar – eðal fermingargjöf. 

Hvað var fyrsta lagið sem þú mannst eftir að hafa fílað í botn? Það var sennilega Bitlalag. Eða Michael Jackson! 

Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn? Jólahjól... úfff, get það ekki. Sennilega textinn. 

Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? Robbie Williams! Gott start.

Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? George Michael... mikill fan. Older platan er þrusu flott.

Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? Sidney. Robbie Williams. Tæki konuna með. 

Hvað músík var helst blastað í bílnum þegar þú varst nýkominn með bílpróf? Jet Black Joe eða Oasis. Stöðugt... 

Hvaða tónlistarmaður hefur þig dreymt um að vera? Mest áhrif á mig allavega... Elton John, George Michael, John Lennon. Get ekki gert upp á milli. 

Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út? Besta... erfitt. En mest áhrif á mig hafði sennilega Faith með George Michael. Meistaraverk. Hlusta enn mjög mikið á hana. 

Sex vinsælustu lögin á Playlistanum þínum? 
No Regrets - Robbie Williams 
Home - Daughtry 
What about now - Daughtry 
Over you - Daughtry
Hafið er svart - Jónas Sig. 
GMF - John Grant

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir