Það verður prjónað á Blönduósi um helgina
Prjónagleðin verður haldin á Blönduósi um næstu helgi, hefst á morgun 9. júní og henni lýkur á sunnudag. Þetta er önnur prjónahátíðin sem haldin er á vegum Textílseturs Íslands en fyrirmyndin er prjónahátíðin á Fanø í Danmörku. Á hátíðinni verður boðið upp á allt að 20 námskeið og fyrirlestra sem tengjast prjóni með einum eða öðrum hætti.
Á heimasíðu Prjónahátíðarinnar segir að á staðnum verði sölubásar þar sem prjónatengdur varningur verður til sýningar og sölu og ýmislegt annað spennandi verður í boði alla helgina. „Við hlökkum til að leiða saman kennara og áhugafólk um prjónaskap ásamt atvinnufólki í greininni. Við stefnum á að Prjónagleðin verði árlegur atburður á degi prjóna sem er annar laugardagur í júní, ár hvert,“ segir á Prjónagleði.is en þar er hægt að sjá hvernig dagskráin lítur út.