Það voru ekki jól nema að Mahalia Jackson væri á spilaranum / MARGRÉT EIR

Að þessu sinni er það Margrét Eir Hönnudóttir sem situr fyrir svörum í Jóla-Tón-lystinni en hún hefur sungið inn jólin fyrir margan Íslendinginn síðustu árin, enda var hún í áraraðir ein aðal söngdívan í Frostrósum.

Margrét Eir býr á Bergþórugötunni í Reykjavík en ólst upp í Hafnarfirði hjá mömmu sinni, Sigurveigu Hönnu, og afa sínum og ömmu. Afi hennar, Eiríkur Pálsson, var ættaður úr Svarfaðardal og segist hún alltaf hafa sterka tengingu norður. „Mágkona mín, Helga Rósa, býr svo á Sauðárkróki og við förum nokkuð oft í heimsókn,“ segir Margrét Eir sem verður einmitt með jólatónleika í Sauðárkrókskirkju 9. desember.

Eins og flestir vita þá syngur Margrét Eir flestum öðrum betur en hún er núna að læra á gítar og kann aðeins á píanó. Spurð út í helstu tónlistarafrek sín segir hún: „ Þau eru kannski nokkur sem ég mundi flokka undir afrek. Til dæmis lít ég á allar plöturnar mínar sem afrek. Þegar ég vann Söngkeppni framhaldsskóla 1991 og Hárið 1995 er kannski nokkuð ofarlega líka. Ég fór til Boston í leiklistarnám og útskrifaðist þar 1998 og ég er mjög stolt af því.  Ég er líka rosalega ánægð með Frostrósir - alltaf rosalega metnaðarfullt verkefni.“

Feykir fékk Margréti Eir til að svara nokkrum spurningum um tónlistina með nokkra áherslu á jólin.

Hvaða lag varstu að hlusta á? Ég var að hlusta á Lindu Ronstadt vinkonu mína syngja When You Wish Upon A Star. Ég er að máta við það nýjan íslenskan texta sem ég ætla að flytja um jólin.

Uppáhalds tónlistartímabil? Ég er voðalega mikið 80´s kona og ætla bara ekkert að skammast mín fyrir það. Ég hef verið að færa mig aðeins aftar svona í seinni tíð – 1960-70 er soldið mikið í spilun síðustu árin.

Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? Ef vandað er til verks í flutningi þá hlusta ég. Ef ég heyri að viðkomandi leggur sál og hjartað fram þá er ég alveg að hlusta. Ég nota Spotify og þar kemur alltaf eitthvað upp, annað hvort nýttnýtt eða gamalt nýtt.

Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? Það var mikil klassík á mínu heimili og Bítlarnir. Það voru ekki jól nema að Mahalia Jackson væri á spilaranum. Mamma keypti handa mér Disney plötur þegar ég var mjög lítil og ég spilaði þær mikið og svo hlustaði ég endalaust á Dýrin í Hálsaskógi og Kardemommubæinn.

Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? Sem ég keypti mér sjálf var örugglega Duran Duran. Hlustaði mikið á þá hljómsveit. Svo komu út allskonar safnplötur sem ég var mjög dugleg að kaupa.

Hvaða græjur varstu þá með? Ég fékk Pioneer græjur í fermingargjöf - þær voru svo sannarlega vel nýttar. Geggjaðar græjur.

Hvað tónlist hlustar þú helst á í jólaundirbúningnum? Tja, ég þarf náttúrelga að undirbúa mig fyrir mína tónleika þannig að ég hlusta mikið á það efni sem ég er að fara flytja. Þetta verður soldið blanda af gömlu íslensku lögunum og svo þau erlendu, Nat King Cole er ómissandi í desember.

Hvaða músík var helst blastað í bílnum þegar þú varst nýkomin með bílpróf? Allt sem krafðist mikillar raddbeytingar;  Bonnie Tyler, Heart, Duran og öll drama lögin.

Hvert var uppáhalds jólalag unglingsáranna? Alveg örugglega lögin hennar Helgu Möller og Björgvins Halldórssonar.

Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn? Hmhm... allt sótthreinsað og sálarlaust popp þar sem er greinilega ekkert á bak við – ekki einu sinni alvöru söngur.

Hvenær má byrja að spila jólalögin? Ég byrja ekki að spila jólatónlist fyrr en í desember. Það má vera 1. des en ekki fyrr.

Uppáhalds jólalagið? The Christmas Song (Chestnuts roasting) og Heims um ból.

Hvert er fyrsta jólalagið sem þú manst eftir að hafa heyrt? Ég hlustaði stanslaust á jólaplötuna með Ómari Ragnarssyni, Gáttaþefur á jólskemmtun. Hún var bara alltaf til staðar.

Hvernig eru jólalögin best? Best með malt og appelsíni.

Þú vaknar í rólegheitum á jóladagsmorgni, hvað viltu helst heyra? Ég vil heyra Nat King Cole og Mahilia Jackson, smá Sissel, smá Frank Sinatra og dash af Sting – þá er ég orðin nokkuð góð.

Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? Ég hef reyndar séð alveg ótrúlega margt. U2, Robert Plant og Allison Kraus, Prince og fleiri góða. Ég væri alveg til í að sjá Annie Lennox og Tom Jones, missti af honum hérna heima.

Hvaða tónlistarmaður hefur þig dreymt um að vera? Ég lít mikið upp til Annie Lennox, veit ekki hvort ég væri til í að vera hún EN kannski kæmist næst því. Joni Mitchel er mín kona en ég held að ég mundi heldur ekki vilja vera hún, stórkostlegur listamaður en hún reykir aðeins of mikið.

Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út? Ég get ekki svarað þessari spurningu. Það er engin plata sem er BEST. En hérna eru nokkrar sem ég held uppá:  Joni Mitchell - Clouds og Blue, Robert Plant og Allison Kraus - Raising Sand, The Beatles - nánast allar plöturnar, Trio I með Linda Ronstadt, Dolly Parton og Emmylou Harris, Bob Dylan - Oh Mercy og fleiri plötur, Neil Young  - Harvest Moon, Linda Ronstadt - Simple Dreams og Heart like a wheel, U2 - Unforgettable fire ... og svo margar margar aðrar. Vantar örugglega fullt í þennan lista.

Ef þú gætir valið þér að syngja jóladúett með hvaða söngvara sem er, lífs eða liðnum, hver væri það og hvaða lag yrði tekið? Ég hefði verið til í að syngja með George Michael, svo silkimjúkur og flottur. Ég væri líka til í að syngja geggjaðan dúett með Tom Jones. Hann er í miklu uppáhaldi, sérstaklega á seinni árunum. Konurnar væru : Linda Ronstadt, Annie Lennox, og Areatha Franklin ... ég meina hver mundi ekki vilja syngja jólin inn með þessu fólki?

Hvenær eru jólin komin? 24. desember þegar ég vakna. Allt tilbúið og ég byrja að undirbúa matinn, koma út síðustu pökkunum og nokkrar heimsóknir.

Sex vinsælustu lögin á Playlistanum þínum? Tja, samkvæmt recently played, þá eru það:
I Wanna Be A Producer - úr söngleiknum The Producers
Faithless Love - Linda Ronstadt
The Sweetest Gift - Trio
Kathy´s Song - Simon and Garfunkel
The Snow That Melts The Soonest - Sting
Fly - Ludovico Einaudi

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir