Þekkingarsetrið fær styrk frá Tækniþróunarsjóði Rannís

Nýlega hlaut hagnýtt rannsóknarverkefni Þekkingarsetursins á Blönduósi, Bridging Textiles to the Digital Future, styrk frá Tækniþróunarsjóði Rannís. Verkefnið hefst 1. september næstkomandi. Um er að ræða samstarfsverkefni Þekkingarsetursins á Blönduósi og Textílseturs Íslands. Ragnheiður Björk Þórsdóttir vefnaðakennari og veflistamaður mun hafa aðalumsjón með verkefninu.
Markmið verkefnisins er meðal annars að varðveita og gera aðgengileg gögn sem hafa menningarsögulegt-, hönnunar- og sagnfræðilegt gildi, auka skilning á íslenskri vefnaðarhefð og leggja grunn að nýsköpunartækifærum/framleiðslu á sviði textíls.
Verkefnið er áætlað til þriggja ára og felst meðal annars í skráningu á vefnaðarmunstrum sem tilheyra Vinum Kvennaskólans og Textílsetri Íslands í rafrænan gagnagrunn, uppsetningu vefsvæðis þar sem munstrin verða aðgengileg fyrir textíllistamenn, hönnuði og nemendur á sviði textíls og miðlun sérþekkingar á TC2 rafrænum vefstól sem staðsettur er í Kvennaskólanum. Á fyrsta ári verkefnisins verður lögð áhersla á greiningu, ljósmyndun og skráningu vefnaðarmunstra. Styrkupphæð fyrir fyrsta árið verður um 7 milljónir króna.
Í Kvennaskólanum er varðveitt mikið magn af vefnaðarmunstrum og vefnaðarprufum, bæði frá því á dögum skólahalds og einnig einkasöfn sem hafa verið gefin Vinum Kvennaskólans og Textílsetrinu. Þar á meðal eru frumgögn íslenskra vefara og vefnaðarkennara sem störfuðu við Kvennaskólann, prufur og vefnaðarmunstur frá Vefstofu Guðrúnar Jónasardóttur vefnaðarkennara sem starfaði um miðbik seinustu aldar auk kennslugagna frá kennsluferli Guðrúnar við Textíldeild Myndlistar- og handíðaskóla Íslands. Áætlað er að um og yfir 1000 handskrifaðar blaðsíður af vefnaðarmunstrum, uppskriftum fyrir vefnað og yfir 1500 vefnaðarprufur séu þegar komar til varðveislu.
Stefnt er að því að skrá u.þ.b. 2.000 munstur árin 2017-2018, auk þess að þýða texta, uppskriftir og frumgögn yfir á ensku og eitt Norðurlandamál.