Þórsarar mæta Stólunum í Síkinu í kvöld

Friðrik Stefáns í leik gegn Þór í vor. MYND: HJALTI ÁRNA
Friðrik Stefáns í leik gegn Þór í vor. MYND: HJALTI ÁRNA

Körfuboltinn heldur áfram að skoppa í kvöld og eru stuðningsmenn hvattir til að fjölmenna í Síkið og hvetja lið Tindastóls gegn þrautreyndum Þórsurum úr Þorlákshöfn. Leikurinn hefst kl. 19:15 og eflaust verður hægt að gæða sér á sjóðheitum hömmurum fyrir leik.

Lið Tindastóls er á toppi Dominos-deildarinnar sem stendur, með 12 stig að loknum átta umferðum ásamt liðum Keflavíkur og Stjörnunnar úr Garðabæ. Lið Þórs hefur verið að gera ágæta hluti í haust og í raun komið mörgum á óvart. Sunnlendingarnir eru með 8 stig, hafa unnið fjóra leiki og tapað fjórum en í síðasta leik máttu þeir þola tap á heimavelli gegn ólseigu liði Breiðhyltinga Borce í ÍR. Lærisveinar Friðriks Inga mæta því sennilega sárir en brattir í Síkið þar sem þeir unnu óþarflega eftirminnilega sigra í úrslitakeppninni í vor. 

Talsverðar breytingar hafa orðið á liðum Tindastóls og Þórs og þá jafnvel innbyrðis. Þannig nældu Stólarnir í Baldur Þór þjálfara Þórs og Jaka Brodnik, einn besta mann liðsins síðasta vetur. Þórsarar fengu hins vegar til sín nú fyrir skömmu Dino Butorac sem spilaði með Stólunum á síðasta tímabili.

Það verður því örugglega hart barist í kvöld og um að gera að fjölmenna í Síkið. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir