Þrengir að í rekstri Hólaskóla
Í fréttum RÚV í gær var sagt frá því að víða væri farið að sverfa verulega að í rekstri Háskólans á Hólum. Haft var eftir Erlu Björk Örnólfsdóttur, rektor Hólaskóla, að útlit væri fyrir að á næsta ári yrði enn frekar þrengt að starfsemi skólans. Um 240 nemendur stunda nú nám við skólann, eins og fram kom í Feyki í síðustu viku.
Samkvæmt fjárlögum ríkisstjórnarinnar fyrir næsta ár fær skólinn um 280 milljónir króna, sem er svipuð fjárhæð og á þessu ári. Hólaskóli hefur glímt við umtalsverða fjárhagserfiðleika á undanförnum árum og hefur þurft að grípa til niðurskurðar í rekstrinum. Segir rektor morgunljóst að enn þurfi að draga saman seglin.
„Það er morgunljóst að miðað við þessa umgjörð, þá höldum við áfram að þrengja að okkar starfi, með því að vinna innan fjárheimilda og það er víða farið að sverfa verulega að. Við þurftum á síðasta ári að segja upp starfsfólki og stundum gátum við ekki endurráðið þegar fólk sagði upp störfum. Þannig að þetta er þröngt,“ sagði Erla Björk í samtali við RÚV.
Erla Björk segist lifa í voninni um aukna fjármuni. „Ef við veltum fyrir okkur sóknartækifærunum, þá virðast þau liggja í því að efla rannsóknir og sækja í rannsóknarsjóði,“ sagði hún ennfremur í samtalinu við RÚV.