Tindastóll í aðra deild

Það verður varla annað sagt en að Stólarnir hafi lekið upp í 2. deild í gærdag - en hverjum er ekki sama hvernig liðið komst upp, aðalmálið var að komast upp um deild. Okkar menn mættu liði Árborgar öðru sinni í undanúrslitum 3. deildar og þegar upp var staðið þá hafði gestunum tekist að vinna 3-1 en það dugði ekki til þar sem Tindastóll sigraði í fyrri leik liðanna 3-0 og sigruðu því samanlagt 4-3.

Leikið var við frábærar aðstæður á Sauðárkróksvelli, nánast logn á vellinum, skyrtuveður á áhorfendapöllunum og fín stemning, pallarnir nánast fullir og nokkrir tugir íhaldssamra stuðningsmanna komu sér fyrir í grænu stúkunni undir Nöfum.

Leikurinn fór rólega af stað og greinilegt að Tindastólsmenn ætluðu ekki að taka óþarfa áhættu. Þeir voru engu að síður mun líklegri til að ná forystu í leiknum og áttu nokkra hættulega sénsa fyrsta hálftímann. Árni Einar var nálægt því að skora þegar hann skallaði boltann í þverslá eftir hornspyrnu og þá átti Árni Ödda hörkuskot í þverslá úr aukaspyrnu. Á 37. mínútu fengu gestirnir síðan ódýra aukaspyrnu inni á vallarhelmingi Stólanna, boltinn var sendur inn á vítateig þar sem Arnar Magnús náði boltanum en dómarinn dæmdi vítaspyrnu, vildi meina að einn varnarmanna Tindastóls hefði tekið upp ólöglegt hald sem ekki hæfði þeim dansi sem stiginn var í teignum. Markamaskína þeirra Árborgara, Guðmundur Ármann Böðvarsson, tók vítið og sendi boltann af öryggi í markið. 0-1.

Við markið æstust leikar og Stólarnir settu í fluggírinn og eftir mikla pressu tókst Bjarka Má að skalla boltann í markið á 42. mínútu eftir laglega sendingu frá Arnari Sig. Róuðust nú taugar áhorfenda en Adam var ekki lengi í 2. deild. Árborg fékk hornspyrnu strax í kjölfarið og Stólunum mistókst að koma boltanum frá og skyndilega var Hartmann Antonsson með boltann einn og yfirgefinn á markteig Tindastóls og tókst honum að endurheimta forystuna. Staðan orðin 1-2 og þannig lauk fyrri hálfleik.

Tindastólsmenn héldu áfram að spila ágætan fótbolta í upphafi síðari hálfleiks en augljóst var að forystan hafði gefið leikmönnum Árborgar sjálfstraust og þeir voru óragir þegar þeir nálguðust mark Tindastóls. Á 53. mínútu bættu þeir þriðja markinu við en þá komust þeir í skyndisókn, Guðmundur Ármann óð inn á teig Stólanna og lét vaða af þrumuskot utan úr teignum og upp í nærhornið hjá Arnari Magnúsi án þess að hann kæmi nokkrum vörnum við. Glæsilegt mark.

Það sem eftir lifði leiks nöguðu áhorfendur neglurnar um leið og leikmenn Árborgar urðu örvæntingarfullir í sóknaraðgerðum sínum. Þeir fengu fá færi það sem eftir lifði en Stólarnir tóku stuðningsmenn sína í kennslustund í því hvernig misnota skal dauðafæri. Iðnastir voru Árni Ödda og Ingvi Hrannar, þeim gekk illa að hitta markið og svo tókst þeim í nokkur skipti að láta markmann Árborgar líta út fyrir að vera í heimsklassa. Brotið var á Ingva innan teigst en dómarinn var búinn með vítakvótann. Arnar Sig átti fína takta á vinstri kantinum og fíflaði hann vörn Árborgar hvað eftir annað upp úr skónum en finturnar og klobbarnir skiluðu litlu að þessu sinni. Árni Einar dreifði boltanum vel en allt kom fyrir ekki; Tindastólsmenn voru bara ekki á skotskónum. Síðustu mínútur leiksins söfnuðu gestirnir gulum spjöldum og voru sumir heppnir að tolla inná. Síðasta dauðafæri leiksins fékk síðan Snorri Geir en málarinn setti boltann framhjá. Lokatölur 1-3 og Stólarnir fögnuðu sæti í 2. deild.

Í samtali við Feyki eftir leik sagði Siggi Donna  þessi leikur væri saga sumarsins hjá Stólunum: -Dauðafæri fara forgörðum og hafa gert í allt sumar og þetta var dæmigerður leikur fyrir sumarið. Við spiluðum góðan leik fyrir austan og nýttum þá færin en það er alveg með ólíkindum hvernig við höfum farið með færin í sumar leik eftir leik.

En ég er stoltur af mínu liði og það er eftirvænting í hópnum að fara upp þar sem þessir ungu og efnilegu strákar munu koma við sögu eins og þeir gerðu í sumar og ég lít björtum augum á framtíðina.-

Siggi sagði framtíð sína hjá liðinu óráðna en það kæmi allt í ljós en hann var kátur með sætið í 2. deild. -Það er bjart yfir okkur og ég er alveg sannfærður um að með sama mannskap þá nær þetta lið góðum úrslitum á næsta ári.-

Einn leikur er þó enn eftir hjá Stólunum; sjálfur úrslitaleikurinn um sigur í 3. deild. Andstæðingur Tindastóls verður sameinað lið Dalvíkur/Reynis og fer leikurinn fram nú á laugardaginn kl. 14. Ekki er enn ljóst hvar leikið verður en ljóst er að það verður mikið Norðurlandspartí í 2. deildinni næsta sumar.

Feykir óskar Tindastólsmönnum til hamingju með sætið í 2. deild. Hér að neðan er myndasyrpa sem Palli blaðamaður smellti saman.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir