Tindastóll/Neisti – Keflavík á morgun
Stelpurnar í Tindastóli/Neista taka á móti liði Keflavíkur í A-riðli 1. deildar kvenna á Sauðárkróksvelli á morgun. Leikurinn hefst kl. 14:00.
Upphaflega átti leikurinn að hefjast kl. 17:00 en Keflvíkingar sóttu um að honum yrði flýtt. Áður hafði Tindastóll reynt að hafa heimaleikjaskipti við Keflvíkinga og spila þessa umferð syðra með það fyrir augum að vera nær þjálfurum sínum sem spila sama dag með Tindastóli gegn KB á Leiknisvelli. Það samþykktu Keflvíkingar ekki og verður því leikurinn eins og áður sagði á Sauðárkróki og mun Pálmi Valgeirsson fá það vandasama verk að stýra liðinu gegn hinu sterka Keflavíkurliði.
Bjarki Már Árnason þjálfari stelpnanna er hins vegar bjartsýnn og líst vel á leikinn eins og alla aðra leiki. Keflavík vann síðasta leik sinn 14-1 gegn Draupni og aðspurður segir Bjarki það ekki sýna yfirburði liðsins í deildinni heldur telji hann að Draupnir hafi átt slæman dag.
-Keflavík er eitt sterkasta liðið í deildinni en við getum unnið hvaða lið sem er, segir Bjarki sem vill ekki gefa upp hvert endanlegt markmið liðið hafi sett sér í deildinni í sumar heldur ætlar það að halda því fyrir sig.
Vel var mætt á síðasta leik og er fólk kvatt til að gera slíkt hið sama á morgun og skemmta sér yfir fótbolta áður en kosningaspenningurinn hefst.
Áfram Tindastóll/Neisti
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.