Tindastólssigur í kvöld

 Tindastóll sigraði annan leik sinn í Iceland-Expressdeildinni í kvöld þegar liðið vann FSu 86-72. Var þetta fyrsti heimaleikur Tindastóls í deildinni í vetur en áður hafði Tindastóll unnið Snæfell á útivelli 57-55.

Leiksins í kvöld var beðið með mikilli eftirvæntingu, þar sem FSu sigarði Njarðvíkinga örugglega í fyrsta leik sínum á Selfossi í síðustu viku.

Gestirnir voru skrefinu á undan lengstum í fyrsta leikhluta en eftir hann var staðan 20-23. Tindastóll náði yfirhöndinni í öðrum leikhluta og í hálfleik var staðan 44-39 fyrir Tindastól.

Tindastóll hafði 13 stiga forystu eftir þriðja leikhlutann 70-57 og stýrði leiknum síðan sér í vil í síðasta leikhlutanum og leiknum lauk 86-72.

Darrell Flake skoraði 24 stig og tók 8 fráköst fyrir Tindastól, Ben Luber setti 18, Ísak Einarsson 17, Svavar Birgisson skoraði 14 stig þar af 12 í seinni hálfleik og Sören Flæng skoraði 13 stig og tók 8 fráköst. Helgi Viggósson stóð vakt sína með prýði, tók 6 fráköst auk þess að næla sér í algengar 5 villur.

Tindastóll hefur nú unnið tvo fyrstu leiki sína í deildinni. Næsti leikur er gegn Grindavík á föstudaginn kemur. Næsti heimaleikur er hins vegar fimmtudaginn 30. október þegar Stjarnan kemur í heimsókn.

Fleiri fréttir