Tíunda bindi Byggðasögu Skagafjarðar komið út

Það þarf vel byggðan skáp til að halda Byggðasögunni. Hér gefur að líta bindin tíu. MYND: ÓAB
Það þarf vel byggðan skáp til að halda Byggðasögunni. Hér gefur að líta bindin tíu. MYND: ÓAB

Það eru ríflega 26 ár síðan undirbúningur að ritun Byggðasögu Skagafjarðar hófst en fyrsta bókin kom út árið 1999. Lokabindi Byggðasögunnar, og hið tíunda í röðini, er nú komið út hjá Sögufélagi Skagfirðinga og þar er fjallað um Hofsós og Hofsóshrepp, Grafarós, Málmey, Drangey og Haganesvík í Fljótum.

Í kynningarbæklingi Byggðasögunnar kemur fram að í heildarverkinu sé á samtals 4.620 blaðsíðum, í texta og myndmáli,fjallað um „...allar bújarðir Skagafjarðar sem verið hafa í ábúð einhvern tíma á árabilinu 1781-2021, samtals 676 býli. Hverri jörð er lýst, bygginga getið og fylgir tafla yfir fólk og áhöfn á tímabilinu 1703-2020. Eignarhald og saga jarðanna er rakin frá því þær koma fyrst við heimildir. Öllum fornbýlum og seljum er lýst og GPS-stöðuhnit þeirra tilgreind. Ábúendatal frá tímabilinu 1781-2021 fylgir jarðarlýsingum, auk fjölda innskotsgreina, þjóðsögur, vísur og frásagnir af fólki og fyrirbærum.“

Að venju er rík áhersla lögð á myndefni en ljósmynd er af hverju býli og núverandi ábúendum, auk fjölda annarra mynda og teikninga sem sýna atvinnuhætti, fornar minjar, torfbæi, byggingar og markverða staði. Um 5.100 ljósmyndir, kort og teikningar er að finna í bókunum tíu.

„Tíunda bindið er 394 blaðsíður með rúmlega 420 ljósmyndum, kortum og teikningum. Auk þess eru ýmsar skrár, m.a. heildarskrá yfir bæi og fornbýli, viðbætur ábúendatals og leiðréttingar við fyrri bindi. Heildarskrá mannanafna er orðin svo viðamikil að hún verður ekki prentuð heldur gefin út á netinu á heimasíðu Sögufélagsins á næsta ári,“ segir í kynningu.

Margt breyst á 26 ára vinnslutíma Byggðasögunnar

Það er Hjalti Pálsson frá Hofi sem hefur ritstýrt verkinu frá upphafi og er auk þess aðalhöfundur. Honum til aðstoðar hafa verið Egill Bjarnason og Kári Gunnarsson. Í tíunda bindi ritar Kristján Eiríksson frá Fagranesi kaflann um Drangey. Fullyrða má að ritun Byggðasögunnar í því formi sem hún hefur birst er einstakt þrekvirki og ótrúleg heimild – sennilega einsdæmi á landinu og þó víðar væri leitað.

Bindin urðu heldur fleiri en til stóð í upphafi enda margt breyst varðandi aðgengi að heimildum og stafræna byltingu á vinnslutímanum. Þegar farið var af stað voru stafrænar myndavélar og internetið eitthvað sem ekki þekktist. Bækurnar voru fyrst unnar hjá Ásprenti á Akureyri og hannaðar í samstarfi við höfund en síðustu sex bækurnar voru settar upp hjá Nýprenti á Sauðárkróki eða frá því árið 2010. Prentmiðlun hefur annast prentun bókanna nú síðari árin og þær prentaðar erlendis líkt og er um flestar íslenskar bækur nú til dags.

Hægt er að nálgast bækurnar hjá Sögufélagi Skagfirðinga í Safnahúsinu á Sauðárkróki eða hafa samband í síma 453 6261 eða senda póst á saga@skagafjordur.is. Einnig fæst nýja bókin, og jafnvel einhverjar þær eldri, í bókabúðum.

Fleiri fréttir