Töfraglóð, ein minnsta búð landsins opnuð á Sauðárkróki
Á Sauðárkróki hefur verið opnuð lítil verslun sem sérhæfir sig í handverki og andlegum hlutum og er hún staðsett að Suðurgötu 18. Eigendur eru Páll Ingi Pálsson og Regína Agnarsdóttir. Þrátt fyrir lítið pláss er ýmislegt til sölu.
-Hér inni er handverk frá nokkrum aðilum, tarot spil, orkusteinar og gjafavara. Svo er á mínum snærum saumakona sem útbýr skírnarkjóla og annað eftir pöntunum. Handverkið er unnið af Þórunni Þorsteinsdóttur sunnan úr Garði, Magneu Baldursdóttur og Árnýju Jóhannsdóttur vinkonu minni sem sér um húfurnar, svo er það sundkonan okkar hún Sara-Jane sem málar myndir, segir Regína. -Hér eru einnig hlutir sem Steinn Ástvaldsson er að útbúa, vörur frá Lótushúsinu, heilsu og viskukort og einnig vörur frá Töfrakonum úr Blöndudalnum en það eru töfrasteinar, rúnir og kort, auk vara sem ég flyt sjálf inn frá Bretlandi og eitthvað frá Bandaríkjunum. Þannig að þetta kemur úr ýmsum áttum, segir Regína.
Verslunin opnaði 9. júlí s.l. og er opið frá 1-6 á virka daga og 11-4 á laugardögum