Tónlistarkennarar samningslausir

 Ég var að hlusta á fréttir ekki alls fyrir löngu og þá var sagt að tónlistarkennarar væru ekki með gildan kjarasamning og án hans í þó nokkurn tíma. Ég  fæddist á Blönduósi fyrir tæpum 50 árum, ólst upp á bænum Köldukinn í Torfalækjarhreppi. Ég er yngstur af átta systkinum. Á heimilinu var orgel, fótstigið, og var ég ansi öflugur að spila á það sem barn, og hafði tónlist frá eldri bræðrum mínum sem fyrirmynd. Það var Stones, Bítlarnir og Slade.

Þegar ég byrjaði í barnaskólanum á Húnavöllum þá var ég svo heppinn að fá að læra á orgel. Ekki gengu nú æfingarnar hjá mér eins og kennarinn vildi, hann kom með bók og sýndi mér hvernig fingraæfingar ég ætti að æfa, og ég sagði honum að  að ég kynni þetta allt, ég vildi bara spila Stones, Bítlana og Slade, en það var nú ekki í boði hjá honum að svo stöddu. Nú liðu árin og ég tók nokkur stigspróf og lét þar við sitja þegar ég var um tólf ára aldur. Enn þann dag í dag spyr ég sjálfan mig þeirrar spurningar hverskonar þolinmæði hafa tónlistarkennarar, hlusta á sömu æfingarnar ár eftir ár, því það eru ekki allir nemendur sem hafa sama “tödsið“ fyrir að spila á hljóðfæri.

Núna í seinni tíð hef ég haft ánægju af því að spila á gítar og þá hef ég eignast nokkra á nokkrum árum. Fyrir nokkru síðan þá áttaði ég mig á því að hljóðfæraeign mín væri orðin meiri en ég þyrfti að eiga, fór ég í það að fækka hjá mér gíturum. Þeir fóru einn af öðrum, og svo var komið að því að ég var með einn gítar sem var góður byrjandagítar. Margir höfðu samband við mig og vildu eignast gripinn,

Og það var einn ungur maður, 12 ára gamall, á sama aldri og ég þegar ég lagði orgel spilið til hliðar, hann kom með móður sinni, skoðaði gripinn, og prófaði hann, leist vel á hann og fór að telja peningana sem hann átti. Ekki var hann með nóg meðferðis en í augum hans sá ég glampa þess eðlis að þarna væri hljóðfæri sem hann vildi. Við gerðum með okkur samkomulag, þannig að hann borgaði mér bara hluta af uppsettu verði, og ég tók af honum loforð um að vera duglegur að æfa sig, og að ég fengi að fylgjast með. Nú liðu nokkrir mánuðir ég var staddur heima um kvöld, þegar dyrabjallan hringdi, fyrir utan var stráksi með gítarinn, sagði mér að hann væri kominn til að uppfylla skuldbindingar sínar. Hann kom inn og spilaði fyrir mig allt sem hann hafði æft, og var það alveg með ólíkindum hvað hann hafði náð miklum árangri á ekki lengri tíma. Ég þakkaði honum fyrir komuna, óskaði honum góðs gengis í framtíðinni og sagði honum enn fremur að hann hefði gert upp allar skuldir við mig.

Með þessari frásögn minni vil ég aðeins vekja athygli á að það er ósk mín að þessi ungi maður þurfi ekki að hafa áhyggjur af því að hann fái ekki kennslu við sitt hæfi af vel menntuðum tónlistarkennurum, og ennfremur vill ég biðja fleiri að taka til í geymslum sínum og ef að einhverjir eiga hluti sem þeir eru ekki að nota, er þá ekki upplagt að láta þá til þeirra sem geta notað þá.

Að lokum skora ég á bekkjarsystur mína úr Húnavallaskóla, Kristínu Ásgerði Blöndal að taka við pennanum og senda inn pistil.

Þorsteinn Kristófer Jónsson 

Áður birst í 47. tbl. Feykis

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir