Torskilin bæjarnöfn - Hringver í Viðvikursveit

Mynd: Bæjarstæðið á Hringveri árið 2009. Lengst t.v. á miðri mynd eru tvær tóftir bæjarhúsanna. Nær t.h. eru tóftir tíu hesta hesthúss, þar var síðar rétt og hænsnakofi. Fjær og lengra til hægri eru tóftir votheysgryfju sem aldrei var sett hey í. Til vinstri við gryfjustæðið og lítið eitt fjær voru fjárhús. Ljósi stararbletturinn t.v. er tjarnarstæði og handan þess eru tóftir geitakofa. Mynd: Byggðasaga Skagafjarðar 5. bindi, bls. 323.
Mynd: Bæjarstæðið á Hringveri árið 2009. Lengst t.v. á miðri mynd eru tvær tóftir bæjarhúsanna. Nær t.h. eru tóftir tíu hesta hesthúss, þar var síðar rétt og hænsnakofi. Fjær og lengra til hægri eru tóftir votheysgryfju sem aldrei var sett hey í. Til vinstri við gryfjustæðið og lítið eitt fjær voru fjárhús. Ljósi stararbletturinn t.v. er tjarnarstæði og handan þess eru tóftir geitakofa. Mynd: Byggðasaga Skagafjarðar 5. bindi, bls. 323.

Á landinu þekkjast þrír bæir með þessu nafni. Og það er dálítið skrítið, að allir skuli þeir vera í Norðlendingafjórðungi. Olavius telur Hringver í Ólafsfirði í eyðijarðaskrá sinni við Eyjafjarðarsýslu (O. Olavius: Oekonomiske Reise, bls. 328). Í rekaskrá Hólastóls frá árinu 1296 er sagt, að stóllinn eigi þrjá hluti hvals og viðar í „Hringverzreka“ á Tjörnesi (Dipl. Ísl. II. b., bls. 318). Vafalaust er þetta elzta heimild fyrir Hringversnafninu.

Á hinn bóginn hefi jeg fyrst fundið Hringver í Viðvíkursveit í jarðaskrá Hólastaðar, árfærð 1449 (Dipl. Ísl. V. b., bls. 36). Þar er það ritað Hringuer. Hefir nafnið sloppið furðuvel frá afbökun, því að skráin er norskublandin mjög og flest nöfnin meira og minna afskræmd. Eftir þetta finst Hringversnafnið víða í fornum skjölum (t. d. Dipl. ísl. VII. b., bls. 462.

Landamerkjaskrá fyrir Viðvík um 1500) og ávalt ritað eins. Þegar því þess er gætt, að nafnið er óbreytt síðan á 13. öld, verður að telja nafnið tvímælalaust í sinni upprunalegu mynd. En hvað merkir nafnið? Það er alkunna að orðið „Hringr“ er æfagamalt í norrænu. Og það þekkist, bæði sem mannsheiti og örnefni. Hringhorni hjet skip Baldurs, og vafalaust nefnt þannig eftir lögun á skipinu (Snorra-Edda, bls. 91). Á svipaðan hátt hafa bæjarnöfn verið mynduð eftir landslagi. Gamlar þjóðsögur geta t.d. um, að tveir bæir á Jökuldal hinum forna hafi heitið Hringbotnar (Ólafur Davíðsson: Ísl. gátur, þulur og skemt., bls 45). Sama máli er að gegna um Hringey í Hólmi.

Loks má benda á bæjarnafnið Hringhóll í Húnavatnssýslu (sjá Safn til sögu Íslands, IV. b., bls. 532). Líklega í eyði nú), sem bersýnilega dregur nafn af hólslöguninni. Þegar þess er gætt, að Hringver í Viðvíkursveit stendur langt frá sjó, og frá bænum sjest lítið til sjávar, er hæpið, að síðari hluti nafnsins – ver – eigi nokkuð skilt við kenningarheitið forna: ver þ.e. sjór. Hið sama gildir um „ver“, sem veiðistöð, annaðhvort við sjó eða vötn, því að ver í þeirri merkingu táknar í eldra máli ætíð {ská} verustað til veiðifanga.*

Enda virðist það ekki geta samþýðst við forlið nafnsins. Væri það kent við mann, yrði eignarfallsmyndin, Hrings-, að hafa fundist einhverstaðar (sbr. t.d. Hringsstaðir í Húnavatnsþingi, kendir við Harald hring. Landnáma, bls. 125), en ekki er því að heilsa.

Mjer þykir sennilegast, að viðskeytið „ver“ sje komið af sögninni: verja, skýla. Og það kemur prýðilega heim við landslagið í kring. Vestan við bæinn eru hæðir, sem liggja nokkurnveginn í boga niður með bænum að norðan og fara smálækkandi; þær mynda næstum því hálfhring. Bærinn er því að miklu leyti í skjóli fyrir norðankulda og stormum af þeirri átt, því að hæðahringurinn skýlir = ver. Bæjarnafnið er einmitt prýðilega valið, með hliðsjón af þessu. Ver í þessari merkingu þekkist líka í mannsheitinu Vermundur, þ.e. sá, sem ver eða friðar (sbr. Jón Jónsson: Íslenzk mannanöfn. Þjóðv.fjel, Almanak 1908, bls. 81). Aftur á móti læt jeg ósagt, hvort Hringver í Ólafsfirði eða á Tjörnesi er eins myndað, en grun hefi jeg á, að bæirnir liggi í hlje fyrir norðan veðrum.

* Guðmundur skáld Friðjónsson hefir bent mér á, að ver muni þýða engjalendi (sbr. „Íslending“, VII árg., 10. tbl.). Dregur hann þá ályktun af þessum orðum í Ljósvetningasögu (bls. 138): „Húskarl Þorkels vann þar sem heitir at Landamóti at heyverki“. Á næstu blaðsíðu að framan í sögunni, er sagt að Þorkell hafi haft einn húskarl „ok var hann brautu til vers“ (137). Eflaust má telja það rjett, sem Guðmundur álítur, að upphaflega tákni orðið ver stað, sem verið sje á (um skemmri tíma) og því komið af sögninni vera. En orð sögunnar benda hvergi á, að engi hafi verið kallað ver. Og um Hringvershvilft á Tjörnesi, er eðlilegast að álykta þannig: Hæðirnar, sem mynda hring um hvilftina – hlífa – verja – lægðina fyrir kuldum. Af þessu verið upprunalega til örnefnið Hringver. Bærinn seinna bygður, og dregið nafn af örnefninu og það síðar breytst í: Hringvershvilft.

Rannsóknir og leiðréttingar Margeirs Jónssonar

Áður birst í 38. tbl. Feykis 2019.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir