Trúir ekki á forrétti!

Jennifer Tryggvadóttir sem var matgæðingurinn í tbl 33 í Feyki
Jennifer Tryggvadóttir sem var matgæðingurinn í tbl 33 í Feyki

Jennifer Tryggvadóttir eða „Nennímín“ eins og hún er oftast kölluð var matgæðingur í tbl 33 í Feyki. Hún flutti aftur heim eftir algjöra U-beygju í lífinu og vinnur sem deildarstjóri á yngra stigi í leikskólanum Ásgarði á Hvammstanga. Eitt af áhugamálum hennar er matargerð ásamt því að stunda sund og kalda karið, jóga, hugleiðslu og göngutúra. Það skemmtilegast við matargerðina er að kíkja inn í ísskápinn og búa til rétt úr því sem til er.

,,Skemmtilegast þykir mér þó að kíkja í ísskápinn og búa til rétt úr því sem til er. „Hvað er til í ísskápnum“ uppskriftin varð einmitt til þegar ég reyndi að muna eftir marakkóskri uppskrift sem ég las fyrir langa löngu en mundi ekki alveg smáatriðin, þannig að ég notaði bara það sem til var í ísskápnum. Ég fann þar ræfislega skanka, fennel, gulrætur og lauk. Ég mundi líka eftir að eiga tómata í dós uppi í skáp. Þá ákvað ég að skítmixa þetta allt saman. Svo rak ég augun í rauðvínsflöskuna sem vinkona mín gleymdi, það var „smá“ eftir í flöskunni og það var líka notað.“

FORRÉTTUR

Glas af vatni eða bjór

(Ég trúi ekki á forrétti, eða eins og börnin í leikskólanum mundu segja „Ég elska ekki forrétti“)

AÐALRÉTTUR

Hvað er til í ísskápnum

3 msk. ólífuolía

3-4 stk. lambaskankar

2 stk. laukar

2 stk. hvítlaukar, skipt í geira og þeir afhýddir

1 dós saxaðir tómatar

1 tsk. oregano, þurrkað

½ tsk. basilíka, þurrkað

1-2 stk. fennel

2 stk. gulrætur (skornar í teninga)

2 stk. tómatar (meðalstórir)

50 ml rauðvín eða það sem eftir er í flöskunni

nýmalaður pipar

salt

Aðferð:

Ofninn hitaður í 175°C. Olían hituð í þykkbotna potti sem þolir að fara í ofninn og lambaskankarnir brúnaðir í olíunni á öllum hliðum. Teknir upp úr og geymdir en laukurinn, hvítlaukurinn, fennelið og gulræturnar sett í pottinn og látið krauma við meðalhita í 5-8 mínútur til að fá smá tan (smá lit). Tómötunum hellt í sigti og lögurinn látinn renna af þeim en síðan er þeim hrært saman við, ásamt kryddjurtunum. Látið malla í 3-4 mínútur en þá er rauðvíninu hellt út í, kryddað með pipar og salti, lambaskönkunum bætt í pottinn og hitað að suðu. Lok sett á pottinn og hann settur í ofninn. Kjötið er gufusteikt í 2 klst. og snúið þrisvar eða fjórum sinnum á meðan og soðinu ausið yfir. Þegar kjötið er meyrt er það tekið upp og fært á hitað fat. Hægt er að nota töfrasprota og búa til úr soðinu sósu sem hægt er að hella yfir skankana. Ég hef bara veitt allt upp úr og boðið það sem meðlæti.

EFTIRRÉTTUR

Trufflur með túrmerik

10-14 stk.

300 g kókosmjöl, eða kókosflögur muldar í matvinnsluvél

250 g hrátt lífrænt hunang

1-2 msk. lífrænt hreint túrmerik

Aðferð:

Setjið kókosmjölið í skál ásamt hunangi og túrmerikdufti, blandið vel saman. Búið til passlega stórar kúlur úr deiginu og frystið. Á meðan þær eru í frysti er gott að gera súkkulaðihjúpinn. Dýfið kúlunum að hluta í súkkulaðihjúpinn en einnig má þekja þær alveg með súkkulaðinu. Fallegt er að leyfa gula litnum að njóta sín.

Súkkulaðihjúpur

4 msk. kókósolía

1 ½ dl kakósmjör

125 g  hreint kakó

Aðferð:

Setjið í skál yfir vatnsbaði og hrærið vel saman með gaffli þar til allt hefur samlagast.

 

Hún skoraði á Ragnheiði Jónu, sveitarstjóra í Húnaþingi vestra, sem er einmitt matgæðingur í tbl 35 sem kom út á miðvikudaginn.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir