Tveir girnilegir smáréttir

Djúpsteiktar avókadórúllur með dippsósu. Uppskrift og mynd tekin af www.hanna.is
Djúpsteiktar avókadórúllur með dippsósu. Uppskrift og mynd tekin af www.hanna.is

Ég, Sigríður Garðarsdóttir, elska að fara út að borða og fá mér nokkra smárétti og uppáhalds veitingastaðurinn minn, fyrir sunnan, sem býður upp á þess konar rétti er Tapas. Þegar þessi matarþáttur var skrifaður var ég vör við það að sá veitingastaður væri að halda upp á 22 ára afmæli, enda ekki hissa að hann hafi náð að halda úti rekstri í öll þessi ár, því ég hef aldrei orðið fyrir vonbrigðum þegar ég hef farið þangað og alltaf nóg að gera hjá þeim. En á Króknum er enginn Tapas staður og þá verður maður að hugsa út fyrir rammann og reyna að græja þetta sjálfur, er það ekki bara… Hér koma tveir girnilegir smáréttir af síðunni www.hanna.is. 

RÉTTUR 1
Djúpsteiktar avókadórúllur með dippsósu
    4–5 mátulega þroskuð avókadó – skorin í bita og aðeins maukuð (einnig hægt að nota frosin)
    1 stk rauðlaukur – saxaður smátt
    2 stk rauður chilipipar – fræhreinsaðir að mestu og saxaðir smátt
    4 msk. ferskt koriander – saxað smátt
    pipar og saltflögur
    safi úr einu lime/límonu
    frosnar Tyj spring roll pastry (fást t.d. í Fiska) – hægt að hafa þær bæði litlar og stórar

Aðferð: Pastry kökurnar teknar úr frysti og látnar þiðna aðeins – þá er betra að ná þeim í sundur. Avókadóbitar, saxaður rauðlaukur, chilipipar og kóriander sett saman í skál. Lime kreist yfir, saltað og piprað – blandað saman og avókadóbitarnir maukaðir aðeins með gaffli. Skeið af avókadómauki sett á eina köku og hún rúlluð upp (sjá myndband). Það er smekksatriði hversu mikið er sett í hverja rúllu. Best að bleyta hliðarnar á hverri köku með fingrunum svo að deigið festist betur saman. Þá eru minni líkur á að rúllan opnist i djúpsteikingunni. Olía sett í djúpa pönnu eða pott. Olían hituð og rúllurnar djúpsteiktar á báðum hliðum.

Dippsósa:
    ½ dl ferskt kóríander – saxað
    2 stk hvítlauksrif – pressuð
    cumin á hnífsbroddi
    ½ msk. hunang
    ½ tsk. hvítvínsedik
    1–1½ dl olía
    ½ tsk. sesamfræ
    8–10 stk. kasjúhnetur – saxaðar
    nokkrir dropar af tamarí sósu
    1 tsk. tahini
    pipar og saltflögur

Aðferð: Allt hráefni sett í skál og blandað saman

RÉTTUR 2
Grilluð hörpuskel með beikoni og döðlum

Hörpuskel – pinnar:
    3 meðalstórar hörpuskeljar á hvern pinna (sjá verklýsingu)
    2 döðlur á pinna
    beikon
    sherry
    hunang

Aðferð: Best er að nota millistærð af hörpuskel en hún fæst mjög sjaldan. Þessar litlu eru of smáar og þær stóru þarf oft að skera í tvennt. Betra að hafa döðlur og hörpuskel í svipaðri stærð annars brenna döðlurnar/hörpudiskurinn áður en allt er tilbúið á grillinu. Sherry og hunangi blandað saman í skál – ekki of mikið. Betra að bæta við ef með þarf en hörpuskelin getur verið blaut og þynnt blönduna (ráð að láta hörpuskelina liggja á eldhúspappír áður en henni er velt upp úr sherryblöndunni). Hörpuskelinni velt upp úr sherryblöndunni. Beikoni (1/2 – 1 ræma) vafið utan um hörpuskelina og sett á grillpinnann. Þá er sett ein steinlaus daðla á pinnnann og síðan koll af kolli. Þrjár beikonvafðar hörpuskeljar og tvær döðlur á hverjum pinna.

Salatdressing:
    ólífuolía
    balsamik edik
    safi úr sítrónu
    púðursykur eða hlynsýróp
    hvítlaukur
    smá whole grain mustard
    skvetta af góðri sojasósu
    salt og pipar

Aðferð: Hráefnum blandað saman. Hlutföllin eru meira tilfinning en hitt. Smakka til.

Samsetning:
    salat
    peckanhnetur/valhnetur
    seasamfræ

Aðferð: Pinnarnir settir á heitt grillið og þeir grillaðir í u.þ.b. 2 mínútur á hvorri hlið – háð stærð hörpuskelja og hita á grillinu. Salat sett á disk, salatdressingu hellt yfir, hnetum og seasamfræjum stráð yfir. Grillpinnanum tyllt á salatið og ögn af salatdressingunni hellt yfir.

Verði ykkur að góðu

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir