Undirskriftir tæplega 1200 manna afhentar í dag

Í dag verður ráðuneytisstjóra Dómsmálaráðuneytisins, í fjarveru Sigríðar Á Andersen, afhentur undirskriftalisti sem tæplega 1200 manns rituðu nafn sitt á til að mótmæla harðlega fyrirvaralausri brottvikningu Kristjáns Þorbjörnssonar yfirlögregluþjóns á Blönduósi úr starfi. Afhendingin fer fram klukkan 13:00 að Sölvhólsgötu 7 og er öllum velkomið að mæta.

Í tilkynningu frá aðstandendum undirskriftalistans segir að fyrir lögreglustjóraembættið skiptir þessi brottvikning litlu máli en fyrir yfirlögregluþjóninn lækka lífeyrisgreiðslur um 17%. Það þýðir 20 milljónir króna frá 65 ára aldri til 80 ára aldurs. Efnt var til undirskriftar meðal fólks vegna þessarar framkomu lögreglustjórans á Norðurlandi vestra þar sem skorað er á Dómsmálaráðherrann að breyta þessari ákvörðun og bent er á að þegar lögregluumdæmin voru stækkuð árið 2007 var það samkomulag gert af þáverandi dómsmálaráðherra Birni Bjarnasyni, að lögreglumönnum yrði ekki sagt upp út af sameiningunni og ef yfirmenn yrðu of margir myndi það jafnast út þegar menn færu á eftirlaun.

„Við undirrituð skorum á núverandi dómsmálaráðherra að afturkalla þessa aðför óreynds lögreglustjóra að lögreglumanni og að ríkið standi að fullu við fyrirheit fyrrverandi ráðherra dómsmála,“ segir í tilkynningunni.

Fleiri fréttir